Gömul rök og ný

Þorvaldur Gylfason prófessor og einn umsækjanda að stöðu Seðlabankastjóra skrifar  grein í Fréttablaðið í dag. Þar sem mér hefur fundist vanta meiri rökræðu um aðildarumsókn okkar í ESB, átti ég von á áhugaverðri grein.
 þorvaldur Gylfason
Rökin með og á móti inngöngu Íslands í Evrópusambandið hafa verið kembd í þaula. Þau eru ýmist af hagrænum eða pólitískum toga. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að Íslendingar hafi hag af inngöngu í ESB umfram þær hagsbætur, sem fylgdu inngöngunni á Evrópska efnahagssvæðið 1994.

Hagfræði og pólitík

Hagurinn af inngöngu í ESB felst í aðgangi að ódýrari og betri mat og drykk, lægri vöxtum, einkum ef upptaka evrunnar fylgir með í kaupunum svo sem stendur til, minni verðbólgu, meiri samkeppni, minna okri, meiri valddreifingu, minni sjálftöku, virkara aðhaldi og eftirliti. Jafnvel þótt þessar hagsbætur væru ekki fyrirsjáanlegar, væri ég fyrir mína parta hlynntur inngöngu í ESB af pólitískum ástæðum. Það stafar af því, að ESB er allsherjarbandalag allra helztu vinaþjóða Íslands í Evrópu nema Norðmanna og Svisslendinga, og í þeim hópi eigum við heima, þótt einhver okkar kunni að öllu samanlögðu að draga hagsbæturnar í efa. Við eigum ekki að spyrja að því einu, hvaða hag við getum haft af ESB. Við eigum einnig að hugsa til þess, sem við kunnum að hafa þar fram að færa.

Rökin gegn aðild eru misjöfn að gæðum. Okrarar kæra sig ekki um aðild, því að þeir þurfa þá að láta af iðju sinni. Spilltir stjórnmálamenn munu einnig missa spón úr aski sínum, þar eð þeir munu eiga erfiðara uppdráttar í kröfuhörðum evrópskum félagsskap, og kallar ESB þó ekki allt ömmu sína. Bankarán um bjartan dag verða einnig torveldari undir vökulum augum bankayfirvalda og fjármálaeftirlits ESB. Václav Havel, forseti Tékklands, orðaði þessa hugsun skýrt um árið: Engum nema glæpamönnum getur stafað ógn af inngöngu í ESB. Rök þjóðernissinna gegn fullveldisafsali hafa nú holan hljóm, svo illa sem stjórnvöldum hélzt á óskoruðu fullveldi Íslands. Stjórnmálamenn, embættismenn, bankamenn og stjórnendur stórfyrirtækja keyrðu landið í kaf og bökuðu erlendum viðskiptavinum bankanna svo stórfellt fjárhagstjón, að þeim kann sumum að þykja eðlilegt, að Íslendingar deili framvegis fullveldi sínu með þeim og öðrum, svo að þeim stafi ekki frekari hætta af íslenzkum fjárglæframönnum. Það er skiljanlegt viðhorf af erlendum sjónarhóli. Þjóðverjar kusu að binda hendur sínar innan ESB af tillitssemi við granna sína í ljósi sögunnar. Þetta var einnig hugsun sumra heiðvirðra Færeyinga í kreppunni þar um og eftir 1990: þeim fannst rétt að bjóðast til að segja sig úr ríkjasambandinu við Danmörku af virðingu fyrir Dönum, en af því varð þó ekki.

Ríkidæmisröksemdin

Norðmenn líta margir svo á, að þeir þurfi ekki á aðild að ESB að halda, þar eð þeim séu allir vegir færir á eigin spýtur í krafti olíuauðsins, sem þeir hafa safnað í digran sjóð. Það kann að vera rétt, en þessi rök vitna ekki um mikið örlæti gagnvart fátækari þjóðum innan ESB. Sumir Íslendingar tóku í sama streng og bentu á, að lífeyrissjóðirnir íslenzku námu 100.000 Bandaríkjadölum á mann 2007 borið saman við 85.000 Bandaríkjadali á mann í olíusjóði Norðmanna. Það var þá. Gengi krónunnar hefur lækkað um röskan helming frá 2007, svo að lífeyrissjóðirnir eru nú mælt í dollurum á mann kannski hálfdrættingar á við olíusjóð Norðmanna, sem þeir kalla nú lífeyrissjóð. Ríkidæmisrökin gegn inngöngu Íslands í ESB eiga ekki lengur við. Þau voru falsrök. Ríkidæmið 2007 var tálsýn, sem var reist á rammfölsku gengi krónunnar og hlutabréfa og einnig á uppsprengdu verði fasteigna.

Ég játa að þessi grein Þorvaldar Gylfasonar slær mig, en ég er ekki viss um að hún hafi fært skoðanir mínar neitt í áttina að því að styðja aðildarumsókn Íslands að ESB. Viðbrögðin eru miklu frekar undrun og dálítil depurð, því ég hef alltaf hlustað og lesið það sem Þorvaldur Gylfason hefur haft fram að færa með virðingu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

Maður hlýtur að taka málefnalegri umfjöllun fagnandi. Það eru því mikil vonbrigði hvernig Þorvaldur Gylfason afgreiðir þá sem eru á öndverðri skoðun með hallærislegri stimplagerð. Það er oft einkenni á málflutningi rökþrota manns. Þorvaldur á að geta gert miklu betur.

Okrarar kæra sig ekki um aðild ...
Spilltir stjórnmálamenn missa spón úr aski sínum

Þannig byrjar hann umfjöllun sína um rökin gegn aðild. Gefur andstæðingum ESB-aðildar neikvæða stimpla. Talar andstæðinginn niður en skautar framhjá skoðunum hans. Gerir síðan lítið úr fullveldisafsali sem hann eyrnamerkir þjóðernissinnum.

Þorvaldur flutti glæsilega ræðu á fyrsta borgarafundinum í beinni í Háskólabíói í vetur. Hér bregst honum bogalistin. Greinin er engu skárri en meðal blogg þar sem ESB andstæðingar eru stimplaðir varðhundar kvótaeigenda og gæslumenn sérhagsmuna. Þöggunartilburðir Þorvaldar eru af sama toga, því miður.

Haraldur Hansson, 23.7.2009 kl. 11:44

2 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

„Okrarar kæra sig ekki um aðild ...“

„Spilltir stjórnmálamenn missa spón úr aski sínum“

Þorvaldur er ekki að gefa öllum andstæðingum „neikvæða stimpla“ - hann er að benda á einfaldar staðreyndir varðandi andstöðu sumra. Andstaðan gegn ESB byggir á mörgum þáttum og er misjafnlega samsett hjá fólki. Sumir eru hræddir við fullveldisafsal, einhverjir halda að Íslendingar verði skyldaðir til herþjónustu, andstaða við „auðvaldið“ ræður afstöðu hjá sumum, ótti við ófyrirséðar afleiðingar, ótti við skrifræði, ótti um afdrif landbúnaðar, fiskimiðin tapast, auðlindir lenda hjá erlendum öflum...

Þetta er heilmikil flóra af ástæðum.

Mikið af umræðunni snýst um gera skoðanaandstæðinga tortryggilega: landráð - blinda - afturhald - einangrunarhyggja -

Tilvitnanir:

En Samfylkingunni skal ekki verða kápan úr því klæðinu að selja land og þjóð í hendur ESB-auðvaldinu að júdasískum sið.

Síðan er spurningin hvort við glötum þessu til Evrópuþjóða ESB (auðlindunum)

Það var nóg að Hitler komst til valda einusinni og enn á að reyna og núna með kúgun og peningavaldi að reyna að yfirtaka Evrópu aftur.

ESB ásamt Hollendingum og Bretum vilja setja okkur endanlega á hausin svo þeir fái öllu ráðið hér og tala nú ekki um auðlindirnar sem þeir sækja svo mikið í og norðurskautið

Hjálmtýr V Heiðdal, 23.7.2009 kl. 12:22

3 identicon

Umræðan hefur allt of oft skipst í þessa hópa að menn séu annað hvort með eða á móti ESB.

Það hefur vantað að stilla rökunum með og mót-rökunum upp; hlið við hlið einhversstaðar á tölvuskjá/ESB síðu.

Mr. Jón Scout Commander (IP-tala skráð) 23.7.2009 kl. 12:33

4 Smámynd: Elle_

Hann er að gefa andstæðingum neikvæða stimpla. Andstæðingar eru ekki endilega okrarar, glæpamenn, spillt fólk eða  þjóðernissinar.  Það  er alrangt og hann segir það svart á hvítu.  Það getur vel verið að glæpamenn, okrarar og spillt fólk vilji ekki ganga þarna inn eins og Þorvaldur segir.   Kannski er það ekki óliklegt.   En lýsingar hans passa bara ekki við alla andstæðinga inngöngu.  Það er niðurdragandi að lesa svona frá honum og ég er undrandi eins og Sigurður.

Elle E.

Elle_, 23.7.2009 kl. 19:01

5 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Það sem ég hefði vonast til er að Þorvaldur Gylfason færi yfir rök með og á móti inngöngu í ESB á einhvern vitrænan hátt. Hann talar um þá sem ekki vilja í ESB sem okrara, spillta stjórnmálamenn osfv. Það vantar bara að Þorvaldur telji upp morðingja.

Greinin segir mér ekkert um ESB, en það hvarlar að mér að það sé nauðsynlegt að veita þeim aðilum sem ekki fengu stöðu Seðlabankastjóra áfallahjálp.

Sigurður Þorsteinsson, 23.7.2009 kl. 20:07

6 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Er ekki tími kominn á að ESB sinnar komi fram með alla þá kosti og galla varðandi ESB, þannig að umræða geti farið fram á vitrænan hátt.

Þorvaldur Gylfason getur það ekki. Hann er algerlega blindur á ESB.

Eggert Guðmundsson, 23.7.2009 kl. 21:10

7 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Eggert ég held að það séu ekki bara ESB sinnar, heldur allir þeir sem hafa rök og gagnrök fram að færa. Ef við göngum í ESB, er það ekkert sem við svo léttilega gögnum úr. Það eru kostir og það eru gallar. Morgunblaðið kom með mjög ítarlega og góða umfjöllun um málið í vetur. Almenningur þarf á því að aðalatriðin séu tekin saman og fjallað sé um aðild að ESB á einfaldan, skýran hátt.

Sigurður Þorsteinsson, 23.7.2009 kl. 22:29

8 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Þetta er því miður viðhorf þess manns sem hefur ekki trú á því að við getum tekið til í okkar eigin garði. Sorgleg afstaða.  En þetta eru þau rök sem eru notuð með ESB. Þessi viðhorf hafa sínar ástæður góðar og gildar. Pólitík og hagstjórn hefur verið ámælisverð svo ekki sé meira sagt. Það er hagstjórnarflótti og atgerfisflótti sem er orðinn landlægur.  Ef stjórnmálamenn ætla að halda sjálfstæðinu verða þeir að fara að hugsa um almenning fyrst svo að fólk vilji búa hér áfram.

Vilhjálmur Árnason, 23.7.2009 kl. 23:54

9 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Það sem vantar einnig upp á borðið er kostnaðarhlið Íslendinga í ESB. Það er einungis rætt um lágt vöruverð, lægri skatta, meiri styrki. Það vantar kostnaðinn sem Íslendingar þurfa að greiða fyrir ósköpin.  Ég er búinn að reyna að fá upp á yfirborðið kostnað Íslendinga vegna EES samningsins. Þessar fyrirspurnir er ég búinn að senda til Hagstofu, Ráðuneyta, en enginn hefur svarað.  Mér grunar að íslendingar þurfa að greiða heil ósköp fyrir þátttöku sína á EES og síðan heilmikið til ESB.

Varðandi gjaldmiðilsbreytingu í Evru og/eða fasttengingu við annan gjaldmiðil, er sá kostnaður gíganískur. Það má horfa til Danmerkur í því tilliti. En Danir hafa kosið að nota sinn gjaldmiðil síðastliðin 36 ár. Hvers vegna heldur þú?

Eggert Guðmundsson, 24.7.2009 kl. 09:21

10 Smámynd: Júlíus Björnsson

Sama ræðan um kosti aðildar  EFTA að EU fyrir 1990. Stórskuldugir aðilar fá allstaðar hámarks áhættuvaxta álag, kemur evru og EU ekkert við heldur ábyrgum stjórnendum fjármálastofnanna.

Þjóðaröryggi er á ábyrgð hvers Meðlimaríkis. Ávinningurinn  er Miðstýring og aðgangur að samkeppni kerfum EU á meginlandinu. Frjálst flæði fjármagns eitt af fjórum sem gat réttlætt inngöngu er úr sögunni hvað varðar innlands arðsemi.  Samhlutfallsleg samleitni [Ríkisútgjalda byggingar] löggjöf EU er skilyrt með lögum ef Meðlima-Ríki vilja ekki sæta efnahagslegum þvingunum af hálfu [EU] heildarinnar.  Við eigum ekki séns í samkeppni um auknar þjóðartekjur eða hærri greiðslu í miðstýringuna milli Milli-Meðlimaríkjanna [nema að borga úr eigin vasa]. Fjarlægð og fámenni. Lítum á kostnaðinn í Ríkis og sveitarfélaga sem 2/3 hlutar laga  EU síðan 1995 hafa kostað sér lagi í ljósi skuldsetningarkostnaðar  Þar sem öll lán fara í gegnum Verðbréfavaka[höll] og Seðlabanka kerfis EU Seðlabankanna og verðbréfavaka. Áður var ríkið eitt sér með heildarskuldapakkann og Ríkistengt á fjárlögum og þá gátu kjósendur skynjað bruðlið betur.        

Júlíus Björnsson, 24.7.2009 kl. 16:32

11 Smámynd: Júlíus Björnsson

Tilhvers voru Þjóðverja að selja okkur evrur [gegn krónu bréfum] til að fjárfesta í EU sér í lagi Bretlandi. Vinargreiði Risanna [Innra samstarf]og hvað gerðist gengið hækkaði.  

Það var engin ábyrgur aðili alþjóðasamfélagsins utan Íslands sem áleit ábyrg eða eðlileg arðbærisjónarmið væru að baki fjárfestingum Íslenskra aðila í EU síðustu 20 ár. Góð lán kallast oftar en ekki fórnarkostnaður eða skuldsetningarkostnaður innanbúðar hjá þeim sem lánar.  Byrjendur í Mammon túlka þau sem vottorð um snilli og almenningur Íslands fór ekki varhluta af því. Þýskir bankar þurftu að lána vegna Einkabankalöggjafar EU og hækkandi ávöxtunarkröfu vegna minni ábyrgðar í kjölfarið. Var ekki ágætt að lána Íslandi  það á nóg af tryggingunum miðað við flest meðlimaríki EU og hægt að réttlæta líka þar sem þetta fór allt til banka inn í EU. Háttgengi tryggði EU öll útboðsverkefni og arðinn af þeim.  

Alþjóðlegir fjármálsnillingar éta bláeygða Íslendinga í morgunverð. Af hverju eru við að hlusta á þá sem hafa sannað vanhæfni sína síðustu 20 ár. Breytist fólk til hins betra eða vera eftir fimmtugt?  

Júlíus Björnsson, 24.7.2009 kl. 16:55

12 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þorvaldur gleymir að telja upp þá (okkur) sem vilja koma á fríverslun við  við mikilvæg ríki austan hafs og vestan.

Þorvaldur gleymir að telja upp þá (okkur) sjá hagsmunum Íslands best borgið með því að vinna að afnámi tolla á fiski. 

 Þorvaldur gleymir að telja upp þá (okkur) sem vilja viðhalda íslenskri stjórn fiskveiði, þó þeir séu á móti kvótakerfinu, vegna þess að þeir vita að leið Þorvaldar liggur úr öskunni í eldinn.  Ekki þarf að fara lengra en til Skotlands og Írlands til að sjá það.

Þorvaldur gleymir að telja upp þá (okkur) sem viljum ekki tjalda til einnar nætur og  gefum lítið fyrir tímabundnar undanþágur í sjávarútvegi. Ísland mun ekki ná því fram í aðildarviðræðum að Rómarsáttmáli sem kveður á um að allir fiskistofnar séu sameiginlegir verði afnuminn.

Þorvaldur gleymir að telja upp þá (okkur) sem  viljum viðhalda jafnvægi í lífríki hafsins með því  að nýta sjávarspendýr eins og hverja aðra auðlind í lögsögu Íslands sem yrði lögsaga EB við inngöngu Íslands í bandalagið.

Þorvaldur er tæknikrati af bestu sort en hann virðist tapa sér í ákefðinni og gleymir því ýmsu.

Sigurður Þórðarson, 25.7.2009 kl. 07:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Þorsteinsson

Höfundur

Sigurður Þorsteinsson
Sigurður Þorsteinsson
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Þor
  • Þor
  • Birna Einarsdóttir
  • Birna Einarsdóttir
  • kjöt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband