Ofurjafnaðarmennska í Kópavogi.

Á góðæristímum er tilhneigingin að slaki verði í rekstri sveitarfélaganna. Lúxus hér og gæluverkefni þar.  Fólk er ráðið í verk, sem engin sérstök ástæða er að sinna, ef einhver peningur er til er honum eytt. Í samanburði við skóla í nágrannalöndum okkar er hér mikil ofmönnun t.d. í skólum og leikskólum. Í fjárhagsáætlun Kópavogs fyrir 2010 hefði þurft að hafa manndóm til þess að skera niður. Það höfðu bæjarfulltrúarnir ekki og til þess að ná jafnvægi í rekstri bæjarins settu þeir 1 milljarð í sölu lóða. Nokkuð sem allir hugsandi menn teldu fjarstæðu. Niðurstaðan er 700 milljóna innskil lóða umfram sölu. Hér var því um hreina fölsun að ræða. Guðríður Arnardóttir tók þátt í fjárhagsáætlanavinnunni og vildi fá fram eitthvað sem tæki í, og náði fram að láta eldri borara greiða í sund. Eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu.

Ný fjárhagsáætlun hefur enn meiri Guðríðaráhrif, það er að níðast á þeim sem erfitt eiga að bera hönd fyrir höfuð sér. Nú er ráðist að ungum barnafjölskyldum og er hækkun fyrir þær fjölskyldur sem eiga eitt barn í leikskóla og annað í grunnskóla og nota dagvistun um 150 þúsund á ári. 

Við skulum skoða hvort bæjarfulltrúarnir skera niður hjá sjálfum sér. Nei, aldeilis ekki: 

1. Í góðærinu var ekki talin ástæða til þess að bæjarfélagið borgaði síma bæjarfulltrúana, nú skal það gert. 

2. Stofnað er sérstakt Framkvæmdaráð, á tímum sem engar framkvæmdir eru. Eina sjáanlegi tilgangurinn er að hækka laun bæjarfulltrúana Guðríðar Arnardóttur, Ármanns Ólafssonar og Guðnýjar Dóru Gestdóttur. Um er að ræða fordæmislaust dæmi í sögu sveitarfélaganna. Hefði ekki verið nærað ef bæjarfulltrúarnir eru aðþrengdir að þeir færu í röðina hjá Fjölskylduhjálp Íslands eins og aðir 

3. Til þess að toppa siðleysið fara þau Hafsteinn Karlsson, Guðríður Arnardóttir frá Samfylkingu og Ólafur Gunnarsson frá VG að sveitarfélagið borgi fyrir þau lögfræðikostað þeirra í einkamáli. 

,,Í áliti frá Lagastofnun Háskóla segir m.a. Þótt ýmislegt sé óljóst um heimildir sveitarfélaga til að greiða slíkan kostnað umfram skyldu má ætla að dómstólar myndu játa þeim slíka heimild ef á reyndi.  Beiting slíkrar heimildar skapar hins vegar örðug álitamál í ljósi jafnræðisreglna og skapar fordæmi sem leitt gætu til þess að játa yrði öðrum en kjörnum fulltrúum sambærilega aðstoð".  

Þetta þýðir að  ef Kópavogbær greiðir lögfræðikostnað fyrir bæjarfulltrúana er vel mögulegt að sveitarfélagið verði skikkað að borga lögfræðikostnað í einkadómsmálum allra bæjarbúa, af jafnræðisástæðum!

Í Kópavogi hefur meirihlutinn innleitt nýtt siðferði, ,, að sumir séu jafnari en aðrir".

 


Hlýðnir þingmenn óskast.

Hlýðnir þingmenn óskast til þess að verja ríkisstjórn Íslands. Þeir verða að hafa hundslegt eðli. Vera undirgefnir og tilbúnir að éta það sem úti frýs þegar flokksformenn ríkisstjórnarflokkana ákveða svo. Engar kröfur eru gerða um sjálfstæða hugsun, og alls engar kröfur um þekkingu um þekkingu á efnahagsmálum. Reyndar verður þeim sem hafa þekkingu á efnahagsmálum og eru viljugir að koma þeirri þekkingu á framfæri, hafnað.

Þingmenn með áhuga á að naga kjötbein eru sérstaklega velkomnir en ekki þeir sem hafa áhuga á að veiða mýs, hamstra og fugla. 

Umsækjendur verða að undirbúa sig undir að tímabil ráðningar getur orðið mjög stutt. Umsóknir sendist í pósthólf Jóhönnu Sigurðardóttur eða Steingríms Sigfússonar merkt ,,allt á leiðinni til andskotans". 


Útskriftin í meistaranáminu í pípulögn.

Ungur pípulagningarmaður var að útskrifast úr meistaranámi í greininni. Til hafði staðið að byggja við sumarhús fjölskyldunnar og var hann boðaður á samráðsfund upp í bústað. Þegar þangað var komið voru dregnar upp teikningar að viðbyggingunni sem átti að vera með gólfhita, og svölum sem einnig áttu að vera upphitaðar. Það runnu tvær grímur á pípulagningarmeistarann þegar hann sá hvernig lagnir voru teiknaðar og gerði hann strax athugasemdir. Þegar athugasemdir hans fengu ekki neinar undirtektir fauk í hann, og hann öskraði á liði.

,, Hvers konar bjánar eru þið. Það fer allt til andskotans í þessu húsi, ef þið leggið þetta svona. Ég er sá eini sem hef einhverja þekkingu á málinu. Væri ekki nær að ég teiknaði og kæmi með tillögurnar og þið kæmuð síðan með athugasemdir."

,,Hvaða æsingur er þetta, sagði hagfræðingurinn bróðir hans. Þér fannst ekkert atriði að Lilja Mósesdóttir kæmi að fjárlagafrumvarpinu, hún er þó sú eina innan VG sem hefur faglega þekkingu á málinu". 

,,Ég nenni þessari vitleysu ekki. Í menntun er verið að taka saman reynslu og þekkingu áratuga. Þið segið með framkomu ykkar að það skipti engu máli", sagði pípulagningameistarinn ungi og rauk á stað út.

Þá lyftu ættingjarnir upp bjórnum og sögðu: ,, Til hamingju með útskriftina, nú ertu orðinn sannur meistari". 


Fallegu jólagjafirnar

Afskaplega góð jól, það sem komið er. Hátíðleg, með boðskap, góður matur og samvera fjölskyldunnar. Æ oftar heyrir maður að fólk hefur hætt jólagjafakapphlaupinu, og sett ný viðmið. Fjölskylda vinarfólks okkar tók upp þann sið að eingöngu yrðu gefnar heimatilbúnar gjafir milli systkina og barna þeirra. Þá komu í ljós miklir listamenn og hönnuðir. Fjölskyldan kemur saman á jóladag og þá eru gjafir gefnar. Nú í fyrsta skipti voru þær einnig í formi söng og leiklistar. Það má enginn heyra á það minnst að leggja þetta af. Það er komin hefð og það verður bara skemmtilegra.

Minnist fimmtugsafmælis vinar míns frá Bíldudal. Þar sem fólk kom saman til þess að skemmta hvort öðru. Þá spruttu fram hver snillingurinn á eftir öðrum. Þessi mögnun sem við ,,þiggjendur" vitum vart hvað er.

Jólagjafir sprottnar úr slíkri mögnun eru fallegustu jólagjafirnar.  


Gengur Þorsteinn aftur?

Þorsteinn Pálsson varð ungur formaður Sjálfstæðisflokksins og síðar forsætisráðherra. Þetta var á þeim árum sem það þótti fínt að draga kornunga krakka og setja þá til forystu í fyrirtækjum, stofnunum og félögum. Menntunin skyldi koma í stað reynslu og þroska. Þessi tilraunastarfsemi brotlenti hérlendis eins og víðar. Þorsteinn var étinn af hákörlunum í pólitíkinni og þeir spýttu honum út úr sér eins og sveskjusteini.

Þorsteini var síðan skilað sem formanni Sjálfstæðisflokksins og eftir stuttan stans í almennum ráðherradómi, þar sem hann var m.a. leiðitamur af auðmönnum, gerðist hann sendiherra og stóð sig þar ekki verr en hver annar. 

Þegar átökin voru hvað hörðust á milli Jóns Ásgeir, hins saklausa og Davíðs Oddsonar sem þá var forsætisráðherra, er Þorsteinn keyptur í stól ritstjóra Baugs-fréttablaðsins. Skyldi Þorsteinn þannig öðlast tæki til að gera upp slaginn við Davíð um formannsembætti Sjálfstæðisflokksins, jafnframt að auðvelda flótta Jóns Ásgeirs. Undir ritstjórn Þorsteins voru skrifaðar lofræður um útrásarvíkingana og undurfagra hárlokka Jóns Ásgeirs. 

Þegar hrunið skall á og Jón Ásgeir kom undan lambsgærunni, var ekki lengur þörf fyrir Þorstein, Sveskju-Steina aftur spýtt, enda hans ekki lengur þörf. 

Hópur Íslendinga hefur í alllangan tíma efast stórlega um hæfileika íslenskra stjórnmálamanna til þess að stjórna landinu og vilja gagna í ESB. Þar fer Þorsteinn Pálsson fremstur í flokki, minnugur stjórnartíðar sinnar. Farið er út í átak Sammala.is og í það eytt miklum fjármunum, í auglýsingar og heimasíðu. Átakinu er síðan rústað af ungum auralausm manni með osammala.is. Einsamall kláraði þessi ungi maður ESB átakið, en fékk í staðinn heimsóknir tölvuharkara. 

Nú skal stofna stjórnmálaflokk. Fyrstur til að kynna flokkinn  kemur Gunnar Guðbjörnsson bloggari. Gunnar var hér á árum áður vel liðtækur söngvari. Af bloggi hans að ráða er mjög erfitt að sjá hvaða ástæðu hann telur sig hafa upp á dekk stjórnmálanna. Fyrstu viðbrögð þeirra sem eru hægrisinnaðir ESB sinnar eru: ,,Nei, ekki hann". Þá kemur stóra bomban. Sigurjón Egilsson frá Sprengisandi, kynnir til leiks sam-Baugspenna sinn Þorstein Pálsson. Þorsteinn lýsir því hversu mikil þörf er á nýjum flokki til þess að koma stjórnun landsins til Brussel. Hann sé hins vegar ekki á leiðinni aftur í pólitík, en það var falskur tónn í röddinni, sem sagði, ,,nema að fjöldi manns skori á mig". 

Það gefst nánast alltaf ílla að draga upp drauga úr fortíðinni til þess að leysa vanda nútímans. Það er tímaskekkja. Þorsteinn ætti að halda sig við skriftir, en hann er ennþá vel ritfær.  Draugar eru þeir kallaðir sem ganga aftur. Þeir eru alltaf til óþurftar. 


Jólakveðjur úr Kópavoginum

Ég óska öllum lesendum og vinum hér á blogginu gleðilegra jóla. Þessi hátíð sem kallar fram kærleikann manna á milli er sérlega mikilvæg hjá sárþjáðri þjóð. Við hugum að þeim sem fallið hafa frá, og hugsum með þakklæti til þeirra stunda sem við fengum að hafa þau með okkur.


Maður ársins 2010

Nú þegar líða tekur að áramótum er ekki úr vegi að finna mann ársins 2010. Marinó Njálsson kemur strax upp í hugann hjá mér. Baráttumaður í Hagsmunasamtökum heimilanna, sem reyndi eftir mætti að fara með mál án æsings og uppþota. Hagsmunasamtök heimilanna áunnu sér virðingu með þessari leið, stjórnvöld voru einfaldlega í vondum málum.

Þegar líða fór á árið kom útspil austurblokkar velferðarstjórnarinnar og tveir fjölmiðar svöruðu kallinu. Persónuleg fjármál Marinós voru gerð tortryggileg og hann dró sig í hlé frá stjórnarstörfum hjá Hagsmunasamtökum heimilanna. Þöggunaráætlun stjórnvalda náði þó ekki tilætluðum árangri því fjölmargir komu fram og lýstu fyrir stuðning við Marinó. Hér á blogginu heldur hann áfram og það segir mér svo hugur að stjórnvöld muni gjalda fyrir ofbeldi sitt þegar í upphafi næsta árs. 

Lýðræði er oft metið eftir því hversu auðveldlega fólk getur sett fram gagnrýni og nýjar áherslur í skoðunum án þess að vera refsað fyrir í einhverju formi. Slíkt refsingarferli er kallað þöggun. Svo verðum við að meta hvert og eitt hvort slíkt þekkist í okkar þjóðfélagi. 


Aumyrkjavæðing

Það er þekkt að þegar atvinnuleysi er mikið fjölgar öryrkjum. Ein ástæðan er að niðurlægingin að vera atvinnulaus er svo mikil fyrir marga að þeir velja fremur að verða öryrkjar en atvinnulausir. Önnur ástæða er að ástand atvinnulausra hrekur fólk í þunglyndi og aðra alvarlega sjúkdóma.

Arni Páll Árnason fyrrverandi félagsmálaráðherra stóð sig vel í því að beita sér fyrir átaki fyrir ungt atvinnulaust fólk. Atvinnuleysi má ekki verða að lífstíl. 

Það er full ástæða að taka upp umræðu um vinnuskildu, eða framlagskildu atvinnulausra. Næg eru verkefnin. Allt of oft heyrist frá atvinnurekendum að starfsfólk fáist ekki í hin eða þessi verkefnin. Bæturnar mega aldrei verða til þess að draga úr viljanum til þess að leggja hönd á plóg, fyrir land og þjóð. 

Þeir öryrkjar sem hægt er að koma til verka að nýju, þarf að hjálpa til slíks. Þegar ástandið batnar þá verður aftur skortur á vinnuafli. Þá er hætta á að þeir sem eru orðnir öryrkjar eða aumyrkjar komist ekki aftur á stað. 

Ég geri greinarmun á öryrkjum og aumyrkjum. Þeir sem sannarlega eru öryrkjar eiga skilið að fá mannsæmandi stuðning. Aumyrkjunum þarf að koma á fætur á ný. 


Dónaskapur í Bónus

Mér fannst það mjög óviðeigandi að Jón Ásgeir og fjölskylda ætti áfram Bónus eftir hrun. Fór að færa innkaup yfir í Krónuna, og hef líkað betur og betur. Í gær fór ég og keypti smotterí í Bónus. Á undan mér er kona um sextugt. Á leiðinni til þess að setja í poka rekur hún olnbogann í bríkina þar sem kvittað er undir og við það fellur penni í gólfið. Þegar kemur að því að borga réttir afgreiðslustúlkan henni kreditkortastrimilinn til undirskriftar. Mér til mikillar undrunar sprakk konan af bræði.

,, Með hverju á ég að skrifa. Heldurðu að ég skrifi undir með höndunum. Bónus ræður bara inn útlendinga og vesalinga til vinnu" Sagði konan mjög hranalega. 

Afgreiðslustúlkan brosti vandæðalega og náði í nýjan penna. 

,, Það er lágmarkskrafa að þið hafið hugsun á því að hafa penna fyrir okkur þegar við eigum að skrifa undir". Hreytti konan út úr sér.

Aftur brosti afgreiðslustúlkan, en ég sá að henni leið ílla. Hún brosti aum til mín og byrjaði að renna vörunum mínum í gegn. 

,, Hvernig finnst þér svona framkoma" spyr konan mig allt í einu.

,,Sjáðu" sagði ég og bennti konunni að koma til mín

,,Sjáðu pennann þarna á gólfinu. Þegar þú fórst fram hjá bríkinni áðan, rakst þú þig í pennann og hann datt niður. Svo svívirtir þú stúlkuna fyrir að það væri ekki penni til staðar". 

Konan varð afar vandræðaleg. 

,,Þetta eru útlendingar " sagði konan

,, Ef hún er erlend, þá á hún jafn mikinn rétt á afsökunarbeiðni"

Það kom mér ekki á óvart að konan strunsaði út með pokana sína. Hafði ekki manndóm til þess sýna iðrun. 

Við mættum sýna smá kærleika í samskiptum okkar í jólaösinni, líka við afgreiðslufólkið sem nú vinnur undir miklu álagi. 

 

 

 


Jólagjöf meirihlutans í Kópavogi til barnafólks í bænum.

Samkvæmt útreikningum ætlar meirihlutinn í Kópavogi að hækka álögur á barnafólk í Kópavogi umtalsvert á komandi ári. Fyrir barn í grunnskóla og dægradvöl og annað í leikskóla hækkar gjaldið um kr. 146.113 á ári.  Þessa leið velur meirihlutinn í stað þess að skera niður í kerfinu. Ungt barnafólk hefur orði hvað verst úti í kreppunni, íbúðarlánin hækkað, atvinnan minnkað og mikið af ungu fólki gengur atvinnulaust m.a. eftir nám, þar sem mjög fá ný störf hafa skapast. Við þessar aðstæður telur Samfylkingin í Kópavogi að þessi hópur sé sá sem hvað auðveldast sé að ganga milli bols og höfuðs á. 

Á morgun verður gengið til atkvæða um fjárhagsáætlun meirihlutans eða fjárhagsáætlunar Gunnars Birgissonar, sem vill aðrar áherslur. Þá kemur í ljós hverjar áherslur bæjarfulltrúa allra flokka eru. 

Á sama tíma og meirihlutinn vill níðast á ungu barnafólki, vílar Guðríður Arnarsdóttir ekki að taka sér tugi þúsunda kaupauka fyrir nefndarstarf í framkvæmdanefnd, sem enginn viðrist geta útskýrt hvaða hlutverk hafi, auk þess að láta borga sér símakostnað sem ekki hefur tíðkast hingað til. Auglýst er eftir fjölmiðlamönnum sem tekur þessa ósvinnu fyrir. 


Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Þorsteinsson

Höfundur

Sigurður Þorsteinsson
Sigurður Þorsteinsson
Des. 2010
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Þor
  • Þor
  • Birna Einarsdóttir
  • Birna Einarsdóttir
  • kjöt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband