Óvelkomnir gestir af landsbyggðinni!

Kristján Hall skrifaði stórgóða grein í Morgunblaðið í dag. Kem henni hér á framfæri

Profile Picture

Hingað komu gestir í gær. Þeir komu víða að af landinu, á bátum og bílum af öllum stærðum og gerðum. Þetta var látlaust fólk, sem veifaði brosandi sinastæltum vinnuhöndum til vina og kunningja á leið sinni í miðbæinn. Engin köpuryrði féllu því af vörum, en það svaraði glaðlega, ef á það var yrt. Þetta fólk átti ekki erindi við Reykvíkinga, heldur Alþing sitt og ríkisstjórn, sem hefur aðsetur sitt á þessum útnára siðmenningarinnar, en þegar það ætlaði að bera upp erindi sitt sótti að því hópur innfæddra, með ópum, hrópum og svívirðingum. Greinilega var tilgangurinn sá, að svipta þetta aðkomufólk tjáningarfrelsi sínu, og rétti þess til að kynna Alþingi á málefnalegan hátt mótmæli sín. Ég er ekki víðförull maður, og ég hef aldrei séð tekið svona á móti gestum áður, en þó rekur mig minni til þess að hafa séð viðlíka viðburð einu sinni, en þá var ég í Afríku, og sá hóp bavíana villast inn á heimasvæði annars hóps, en þó að tungumálið væri annað, þá voru viðbrögð og hljóð heimahópanna svipuð.Þá má einnig minnast þess, þegar íslensk kona kom fram á tyrkneskri sjónvarpsstöð og leitaði réttar síns til að fá dætur sínar heim, þá komu fram margir í þættinum, sem andmæltu þeim rétti hennar, og var þáttarstjórinn einn af þeim. En ef einhver andmælendanna talaði óvirðulega til hennar, þá reiddist þáttarstjórinn, og skipaði þeim hinum sama að gæta orða sinna, því hún væri gestur í Tyrklandi, og gestum bæri að sýna virðingu. En þetta var nú menningarþjóðin Tyrkir, og við getum jú ekki lært allt á einni nóttu. Viðbrögð þingmanna finnst mér merkileg. Ríkisútvarpið útlistaði þau í sínu rómaða hlutleysi, með því að senda út ræður tveggja herkerlinga, sem rómuðu framgöngu gestgjafanna í hvívetna, og sögðu þá hafa varið málstaðinn og stefnuna með þeim ágætum, að lýðræðinu, og stefnu ríkisstjórnarinnar hefði verið lyft á þá dýrðlegu braut, sem lofgjörð og tilbeiðslu nýtur.Önnur þeirra sagði jafnframt, að þarna hefði þjóðin sigrað. Það setti mig í svolítinn vanda. Voru gestgjafarnir sigurreifu þessi þjóð, sem allir eru að tala um, en enginn hefur til þessa getað sagt hvað væri, en aftur á móti lýst á margan hátt hvað gæti verið? Kannske var þetta rétt hjá henni, eða var þetta bara eins og þegar hún birti myndina af galdraþulunni í Mogganum, og svo kom í ljós að þetta var bara gamalt dagatal. En Ríkisútvarpið birti líka hluta úr ræðu eins andmælenda þeirra, en svo »óheppilega« vildi til , að það heyrðist ekkert í honum, vegna þess að þingforsetinn hristi höfuðið svo hátt fyrir aftan hann.

 

Ps. Ef ég man rétt  skrifaði Ólína Þorvarðardóttir grein um dagatöl í eitt sinn, sem þóttu ekki beisin. Framganga RÚV var hreint með ólíkindum. 


Bloggfærslur 11. júní 2012

Um bloggið

Sigurður Þorsteinsson

Höfundur

Sigurður Þorsteinsson
Sigurður Þorsteinsson
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Þor
  • Þor
  • Birna Einarsdóttir
  • Birna Einarsdóttir
  • kjöt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband