Yfirgefur Ómar Ragnarsson samfylkinguna?

Hinn elskaði fjölmiðamaður Ómar Ragnarsson er að gera málin upp við samfylkinguna. Hann var í raun tekinn inn  í samfylkinguna  með sameiningu samfylkingarinnar og Íslandshreyfingarinnar  sem var í raun hálfgerð mistök. Rétt eins og hjá sameiningu fyrirtækja þá verða oft toppmenn ekki lengur í  hinu sameinaða fyrirtæki. Nú tekur Ómar Ragnarsson skref í þessa átt. Bendir á ómálefnanlega og óábyrga stefnu alþýðuflokksins sáluga og núverandi samfylkingu í Geirfinnsmálinu. Hér kemru bloggið hans Ómars og svar mitt til hans.

 Blogg Ómars: 

"Þungu fargi létt af þjóðinni" með enn þyngra og verra fargi !

Í tilefni af föstudeginum langa í minningu manns, sem var dæmdur saklaus til lífláts fyrir tæpum tveimur árþúsundum, er okkur vafalaust hollt að íhuga og kryfja svipuð mál á okkar tímum, m.a. í okkar eigin landi.  

,,Þungu fargi er létt af þjóðinni," sagði dómsmálaráðherra Íslands þegar dómarnir voru kveðnir upp í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

Þetta þunga farg fólst í háværri kröfu þorra almennings, sem hafði verið uppi um nokkurra ára skeið, þar sem þess var krafist að lögreglan upplýsti nokkur mannshvörf, sem höfðu orðið síðustu misserin og upprætti glæpsamlega starfsemi varðandi smygl, dreifingu og neyslu fíkniefna.

Krafan, sem fjölmiðlar ýttu undir, kom til áður en Geirfinnur hvarf.

 Ég minnist t.d. viðtals aðgangsharðs sjónvarpsfréttamanns við yfirmann í lögreglunni, sem var sakaður um máttleysi og árangursleysi í mannhvarfsmálum.

,,Það er ekki rétt að við finnum aldrei neitt," svaraði lögreglufulltrúinn, kominn í nauðvörn. ,,Það kemur fyrir að við finnum hinn horfna látinn og allt í fína lagi," datt síðan út úr honum og voru þessi ummæli strax hent á lofti sem dæmi um eindæma klaufagang lögreglunnar.

Þetta var tími mikils umróts og átaka í íslensku samfélagi.

68-kynslóðin skók Ísland með hippabyltingu, uppreisn gegn ríkjandi gildum, afnámi þéringa, breyttum klæðaburði og alveg nýju vandamáli margfaldrar fíkniefnaneyslu og smygls og glæpa í tengslum við hana.

Hviksögur gengu ljósum logum um skipulagða glæpastarfsemi varðandi smygl á áfengi og fíkniefnum og verslun með þau, og voru af sumum tengdar þeim Sigurbirni Eiríkssyni og Magnúsi Leopoldssyni í Klúbbnum og og framlengdar í tengslum við framsóknarflokkinn í gegnum Kristin Finnbogason.

Allt þetta eldsneyti var til staðar og fína fólkið í Reykjavík titraði af æsingi í kjólfötum sínum og síðkjólum þegar ég kom til að skemmta því kvöldið eftir að Ólafur Ragnar Grímsson hafði ,,ráðist með ósvífni" á bankastjóra borgarinnar, eins og hann hefði "stillt upp sakborningum í réttarsal" í sjónvarpsþætti kvöldið áður.

Og það va ekki síður allt í uppnámi þegar Vilmundur Gylfason fór hamförum í beittri atlögu sinni gegn spillingu ríkjandi valdastétta.

Í þessu andrúmslofti þurfti aðeins eina litla handsprengju til þess að valda hundrað sinnum stærri keðjusprengingu, og hún byrjaði í einu stuttu en dularfullu símtali suður í Keflavík og hvarfi mannsins, sem fékk þetta símtal.

Dagblaðið og Vísir háðu hatramma baráttu í æsiblaðamennsku á þessum tíma og kepptust við að flytja stórfréttir af því styrjaldarástandi sem skollið var á í íslenskri þjóðmálaumræðu.

Þetta hafði áhrif á alla aðra fjölmiðla, enda engin leið að forðast umfjöllun um hinar einstæðu játningar og þá háskalegu atburði sem breyttust í hvert eitt sinn sem um þá var fjallað. 

Undir öllum venjulegum kringumstæðum hefðu þessi mál aldrei orðið að því báli, sem þar urðu, ef Geirfinnur hefði ekki horfið.

Og eitt og sér hefði hvarf Geirfinns heldur ekki orðið að stórmáli, sem olli stórskjálfta og hamförum á Alþingi nema vegna þess að önnur mannshvörf höfðu orðið á undan og valdið móðursýki sem beið eftir því að fá rækilega útrás.

Þetta var eins og lítill eldur, sem læstist hraðvaxandi úr einni byggingu í aðra þangað til allt stóð í ljósum logum í þessari stærstu galdrabrennu allra tíma á Íslandi.

Krafan var einföld: Stöðvum þetta glæpahyski, flettum ofan af því og komum því undir lás og slá!

Þá öllu með tölu!

Leitun er vafalaust að annarri eins rangsleitni og og rannsókn málsins átti síðar eftir að leiða í ljós. Dropinnn sem fyllti mælinn var að hingað var fenginn þýskur ,,sérfræðingur" til þess að hafa stjórn á henni. Já, "es muss ordning sein."

Mörgum áratugum seinna upplýstist að sérfræðingur þessi hafði í byrjun ferlis síns fengið þjálfun og unnið sig upp í Gestapo á Ítalíu á stríðsárunum!

,,Ósvífin" skopstæling Flosa Ólafssonar í áramótaskaupinu 1976 á hinum erlenda ,,sérfræðingi" reyndist um síðir byggð á innsæi þess listamanns sem Flosi var.

Föstudagurinn langi er réttur dagur til að íhuga mál af þessu tagi í anda mannsins, sem sagði: ,,Dæmið ekki, því að þér munuð sjálfir dæmdir verða."  

Hafi ,,þungu fargi" verið létt af þjóðinni þegar hún heimtaði og fékk líf og æru sakbornganna í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, varð það aðeins til þess, að skapa stundarfrið, því að undir niðri hlutu margir að sjá þegar rykið settist, að eitthvað var bogið við það að víkja alveg burtu meginreglu réttarríkisins: ,,In dubio pro reo", þ. e. allur vafi skyldi túlkast sakborningi í vil.

Hafi þetta skilyrðislausa boðorð verið brotið gersamlega, var það í þessu máli. Ekki aðeins var allur vafi túlkaður gegn sakborningum, heldur búin til gögn eins og játningar, þvingaðar fram með aðferðum, sem verða að teljast ígildi pyntinga.

Nú, þegar komið er á fjórða áratug síðan galdrafárið og nornaveiðarnar geysuðu er ljóst að í stað þess að ,,þungu fargi væri létt af þjóðinni" var efnt til miklu stærra, verra og óbærilegra fargs varðandi samvisku og sálarheill íslensku þjóðarinnar og íslensks dómskerfis, sem verður að létta af henni eftir því sem föng eru á í eitt skipti fyrir öll.

Það er ekki nóg að hallmæla þeim dómendum, sem þurfti að kveða upp dómana, sem voru börn síns tíma. Það þarf að kafa dýpra og átta sig á því sálarástandi þjóðarinnar sem hvatti til og knúði í raun fram þessa dóma í anda hrópanna: ,,Krossfestu hann! Krossfestu hann!"

Reynum að ímynda okkur hver áhrif þess hefðu orðið, ef sýknudómar hefðu verið kveðnir upp. Það hefði allt orðið vitlaust!  

Við getum ekki lifað við þetta lengur. Hafi Una Sighvatsdóttir þökk fyrir góða umfjöllun um hliðstætt norskt sakamál og Gísli Guðmundsson fyrir einstætt ævistarf í þágu mannúðar og réttlætis.

 Svo kemur lítið ábending mín til Ómars og viðbætur: 

 

Já, Ómar, en finnst þér ekki stórfurðulegt hvað sagan endurtekur sig í sífellu. Fyrst kemur dómur og hann er sætastur ef með í fallinu eru teknir  pólitískir andstæðingar. Engin miskunn sýnd. Aldrei koma með afsökunarbeiðni. Til þess að réttlæta dóminn eru búnar til sögur um ,,illmennin“, og svo skal keyra hratt áfram. Öll gagnrýnin hugsun umsvifalaust lamin niður. Ósannindin og illur hugur ráða, engin kristileg gildi. Geturðu hugsað þér líðan Ólafs Jóhannssonar dómsmálaráðherra á þessum árum, eða annarra sem ráðist var á með þessum hætti. Sumir sátu inni, aðrir bognuðu og/eða brotnuðu.

Fjölmiðlastrákarnir voru jú úr gamla alþýðuflokknum og studdir af mönnum eins og Sighvati Björgvinssyni á Alþingi. Tilgangurinn helgaði meðalið.

Svo eru vinstri menn sameinaðir í samfylkinguna, sem klofnar þegar hugsjóna- og heilindamanneskjan Margrét Frímannsdóttir er kosinn formaður. Auðvitað gat illt ekki umgengist neitt gott og Steingrímur stofnaði VG, eftir að hann féll í formannslagnum við Margréti. Það gerðist líka þegar Jóhanna tapaði fyrir Jóni Baldvini síðar.

Við taka nýir sláttumenn. Nú var það Davíð Oddson sem fær dóminn. Hatrið á sér engin takmörk. Svo er sett rannsóknarnefnd, sem a.m.k. vann nokkuð af heilindum. Fimm eru tilnefnd að fara fyrir landsdóm. Þá tekur liðið sig saman, fríar sína menn og Geir Haarde skal einn draga fyrir dóminn. Geir sem hafði manndóm  til þess að biðjast afsökunar á sínum þætti og þætti ríkisstjórnar sinnar. Það geri reyndar líka Ingibjörg Sólrún og fékk að launum útskúfun frá samflokksmönnum sínum að launum. Eftir á á hyggja voru það verk Geirs Haarde sem björguðu þjóðinni með bráðabirgðalögunum.

Í Kópavoginum var Gunnar Birgisson tekinn af lífi á sama hátt. Dómurinn í svokölluðu lífeyrissjóðsmáli er einn af smánarblettunum sem pólitíkin býður uppá. Þar var reynt að samræma framburði til þess að klekkja á Gunnari. Hvað gerðu fjölmiðlamenn? Fjölmiðlamaður sem varð að segja af sér á Stöð 2 þegar hann var staðinn að því að falsa fréttir, vílaði ekki fyrir sér að ráðast á Gunnar og klína á hann sök, þegar allt hefði verið tekið af honum.

Svo kemur stjórnlagamálið. Að mörgu leyti var sá ferill góður, en þeir sem halda því fram að þetta sé forgangsmál umfram t.d. að berjast gegn fátækt, skuldastöðu heimilanna og atvinnuleysinu eru á villi- götum. Þegar sérfræðingar komast að því að vinna þurfi málið betur og ná sátt, þá er gamla aðferðin aftur dregin á flot og Ómar, þú dansar með! Auðvitað í anda þess að þú sért að vinna gegn ,,vonda fólkinu“.

Látum dómstólana taka upp Geirfinnsmálið og dæma um sýkn eða sekt. Við getum alveg haft okkar skoðanir á vinnubrögðunum í málinu. Hvorki Ómar Ragnarsson eða Sigurður Þorsteinsson eru til þess fallnir að dæma í málinu.

Ómar, það er afskaplega falskur tónn í dvöl þinni með þessu liði. Framganga þín í gegnum tíðina passar ekki við þessi vinnubrögð. Við erum margir sem teljum okkur vera umhverfissinna, og erum ekki sátt, þá er það okkar að kynna okkar málstað og afla honum fylgis.

 

 


Bloggfærslur 29. mars 2013

Um bloggið

Sigurður Þorsteinsson

Höfundur

Sigurður Þorsteinsson
Sigurður Þorsteinsson
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Þor
  • Þor
  • Birna Einarsdóttir
  • Birna Einarsdóttir
  • kjöt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband