Blekkingar ríkisstjórnarnnar afhjúpaðar

Ég ætlaði mér að skrifa hér blogg um blaðagrein Jóhönnu Sigurardóttur þar sem hún enn og aftur á gamals aldri tekur upp á því að fara með ósannindi. Hún hélt því fram að ríkisstjórnin hafi með aðgerðum sínum lækkað skuldir heimila um rúmlega 200 milljarða.

Júlíus Sólens skrifar ágæta grein í Fréttablaði í dag þar sem hann á mjög röggsaman hátt hrekur ósannindi Jóhönnu Sigurðardóttur.  Í lokin er ekki úr vegi að rifja upp þegar Ólafur Ragnar Grímsson rassskellti Jóhann Hauksson núverandi fjölmiðlafulltrúa ríkisstjórnarinar í beinni útsendingu eftir ákvörðun sína að setja Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

 

 


Júlíus Sólnes
fv. umhverfisráðherra

Júlíus Sólnes skrifar:

Umræðan um almenna lækkun húsnæðisskulda landsmanna heldur áfram. Stjórnvöld þykjast hafa lækkað húsnæðisskuldir heimilanna um 200 milljarða nú þegar og halda því fram að ekki sé hægt að gera meira. Þetta stenzt hins vegar ekki skoðun. Fyrir tilstilli stjórnvalda hafa húsnæðisskuldir landsmanna aðeins lækkað um einhverja 30–40 milljarða með ótrúlega flóknum, sértækum aðgerðum. Langmesti hluti 200 milljarðanna er kominn til vegna hæstaréttardóms um ólögmæti gengistryggðra lána.

Ef eitthvað reyndi ríkisvaldið að hindra, að slíkur úrskurður yrði felldur, lyfti a.m.k. ekki litla fingri til að flýta fyrir honum.

Dómurinn hefur hins vegar haft í för með sér, að höfuðstóll gengistryggðra húsnæðisskulda hefur lækkað umtalsvert. Á sama tíma hefur höfuðstóll verðtryggðra skulda hækkað stjórnlaust. Það er ekki mikill jöfnuður í því.

Forsætisráðherra og grátkór lífeyrissjóðanna eru óspör á að segja, að það sé óðs manns æði að fara í almenna 20% skuldaleiðréttingu. Stjórnvöld yrðu talin skaðabótaskyld nema samþykki allra kröfuhafa eða lánveitenda fengist, sem verður að teljast ólíklegt. Verðmiðinn sé um 200 milljarðar miðað við, að húsnæðisskuldirnar séu 1.000 milljarðar. Almenningi er svo talin trú um, að ríkissjóður/skattgreiðendur verði að greiða þennan kostnað, nánast sama dag og leiðrétting eigi sér stað.

Menn virðast ekki átta sig á því, að heildarupphæð húsnæðislána er bókfært virði (væntingar um endurgreiðslu) þeirra miðað við, að þær innheimtist að fullu á 25–40 ára lánstíma. Er það líklegt? Þúsundir heimila ráða illa við að greiða af stökkbreyttum, verðtryggðum húsnæðislánum og því sennilegt, að mikil afföll verði á virði lánasafnsins á næstu árum. Með því að lækka höfuðstól lánanna um 10–15%, gæti innheimtan orðið öruggari, greiðsluviljinn meiri, og lánastofnanir myndu innheimta hærra hlutfall skuldanna en ella. Ef til vill meira en sem nemur höfuðstólslækkuninni.

Hér er varpað fram þeirri hugmynd að breyta lánskjaravísitölunni með einfaldri aðgerð, það er að hreinsa burt allar innlendar skattbreytingar og önnur álíka ósanngjörn áhrif og nota framvirkt veldismeðaltal vísitölunnar til að draga úr miklum sveiflum á henni. Það er ef til vill ekki óeðlilegt, að lánskjör Íslendinga versni við að kaffi hækki í Brazilíu. Það gildir hins vegar ekki, þegar ríkið hækkar virðisaukaskatt skyndilega um 1%, eykur tekjuskatt eða álögur á áfenga drykki og benzín.

Á sama hátt geta sparifjáreigendur ekki ætlazt til að bankainnistæður þeirra hækki af þeim sökum. Tökum dæmi frá stóru nágrannalandi okkar, Þýzkalandi. Þar var virðisaukaskattur hækkaður um heil 3% fyrir nokkrum árum, úr 16 í 19%, til að rétta af fjárhag ríkisins. Við það hækkaði verðlag í Þýzkalandi. Skyldi einhverjum þýzkum sparifjáreiganda hafa látið sér detta í hug að heimta hlutfallslega hækkun á bankainnistæðu sinni af þeim sökum eða lánastofnunum að hækka húsnæðislán?

Hefði vísitala með ofangreindum formerkjum verið innleidd á Íslandi 1995 í stað hrárrar neyzluvísitölu, væri hún núna um 20% lægri en núverandi lánskjaravísitala. Réttlát breyting á vísitölunni þyrfti að vera afturvirk til 1. september 2008, en ef það kynni að skapa ríkinu skaðabótaskyldu er betra en ekki að breyta vísitölunni strax framvirkt til að koma í veg fyrir, að almenningur verði með öllu eignalaus eftir nokkur ár.

Með þessari aðgerð er hægt að lækka húsnæðisskuldirnar framvirkt án skaðabótaskyldu fyrir ríkið. Að sjálfsögðu munu verðtryggðar innistæður lækka að sama skapi sem er eðlilegt. Þetta gæti ef til vill orðið grundvöllur sátta í þjóðfélaginu. Taka verður undir með Jóhönnu, að bezta lausnin er sú að skipta um gjaldmiðil, taka upp evru. Sú lausn mun hins vegar taka allt of langan tíma. Heimilin verða öll komin á hausinn áður, ef ekkert verður aðhafzt nú þegar.

Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar ákvað 1983 að afnema vísitölutengingu launa til að reyna að koma böndum á verðbólguna sem þá grasseraði. Næstu ár á eftir fundu launþegar áþreifanlega fyrir því. Verðtryggður höfuðstóll húsnæðislána jókst hratt í 30% verðbólgu, en launin stóðu nánast í stað. Sigtúnshópurinn svokallaði, en Ögmundur Jónasson, núverandi innanríkisráðherra, var aðaltalsmaður hans, vakti óspart athygli á þessu óréttlæti. Fulltrúar launþega í verkalýðshreyfingunni tóku undir það, andstætt því sem nú gerist. Það leiddi til þess, að lánskjaravísitölunni var breytt með lögum í janúar 1989 og launavísitala reiknuð inn í hana að einum þriðja. Þetta dró verulega úr hækkun verðtryggðra skulda landsmanna á næstu mánuðum og misserum. Tvö fjármálafyrirtæki fóru í mál og kröfðust þess að verðtryggð skuldabréf sem þau áttu skyldu greidd samkvæmt gömlu vísitölunni og báru fyrir sig eignarrétt skv. stjórnarskrá. Viðskiptaráðherra hefði ekki haft vald til að breyta vísitölugrunni verðtryggingar skuldanna. Ríkið vann málin á báðum dómsstigum.

Taldi Hæstiréttur að ríkisvaldið hefði sett verðtryggingu á með lögum og hefði því rétt til þess að breyta vísitölunni með þeim hætti sem var gert. Þess vegna var ekkert aðhafzt, þegar lánskjaravísitölunni var breytt aftur 1995, en á ný voru það helztu forvígismenn launþegasamtaka sem kröfðust þessa. Þeir töldu að vísitalan frá 1989 væri orðin of óhagstæð fyrir launafólk.

Það vekur því nokkra athygli, að 2012 berjast forsvarsmenn launþega hvað harðast gegn því að milda áhrif vísitölunnar. Lánskjaravísitalan, sem nú er í gildi, er óskadraumur fjármagnseigenda. Hún mælir allar breytingar sem geta valdið hækkun hennar þeim í hag, hvort sem einhver rök eða skynsemi eru fyrir því. Hagsmunir skuldara eru hins vegar fyrir borð bornir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Sagt er að sannleikurinn sé stuttur en lygin endalaus.

Mér finnst þú vera að verja vondan málstað Sigurður.

Nú verða hrunmennirnir að taka afleiðingum gjörða sinna. Baldur hefur verið dæmdur, - hver verður næstur? Geir Haarde eða einhver annar?

mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 18.2.2012 kl. 22:58

2 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Guðjón, góður málstaður þarf ekki á lýginni að halda. Fylgi hrunflokkana Samfylkingar og VG hefur nú hrunið í 20% og á eftir að hrynja mun meira.

Sigurður Þorsteinsson, 18.2.2012 kl. 23:17

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Treystir þú skoðanakönnun þar sem 47% annað hvort neita að svara eða vilja ekki gefa upp afstöðu sína? Fylgi Sjálfstæðisflokks hefur yfirleitt verið um 10% meira í skoðanakönnunum en í kosningum.

Stjórnarandstaðan hefur beitt miklu lýðskrumi en innan raða hennar eru stjórnmálamenn sem tengjast mikillri spillingu gegnum brask af ýmsu tagi. Sérðu ekki gegnum þennan popularisma þar sem Bessastaðabóndinn leikur risastórt hlutverk?

Guðjón Sigþór Jensson, 18.2.2012 kl. 23:24

4 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Guðjón, verstu glæpir stjórnmálanna undanfarna áratugi eru einkavæðing bankanna þegar þeir voru seldir erlendum útrásarvíkingum í vogunarsjóðunum og þegar aularnir í VG sömdu um Icesave og ætluðu að keyra Ísland í þrot. Hvort tveggja var á ábyrgð VG. Síðan er það Skjaldborgin um heimilin í landinu. Eina von VG og Samfylkingar er að ganga í Samstöðu,  þar sem Lilja Mósesdóttir tekst vonandi að koma vitinu fyrir þetta trúarlið. 

Sigurður Þorsteinsson, 18.2.2012 kl. 23:46

5 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Sigurður: Er sammála þér með einkavæðingu bankanna.

Varðandi Icesave þá get eg ekki verið sammála þér. Mér sýnist þú falla í sömu gryfjuna og nokkrir lýðskrumarar hafa haft uppi. Í raun hefur alltaf verið nægir fjármunir í Landsbankanum fyrir Icesave þannig að skuldin hefði verið greidd úr þrotabúinu en EKKI af skattgreiðendum. Þessu hefur hins vegar verið haldið fram m.a. af Ólafi Ragnari og er það með öllu óskiljanlegt.

Markmiðin með samningunum var að koma þessu máli sem fyrst frá. En þjóðin féll fyrir þessum óþokkaáróðri. Nú er okkur stefnt fyrir dómstól og þar verða væntanlega lagðar fram ítarlegustu kröfur. Þetta dómsmál getur því orðið okkur mun dýrara en frjálsir samningar.

Þetta Icesave mál var skrúfað upp með mikillri tilfinningu. Lítil skynsemi var í þeim málfluningi en því meir byggt á tilfinningum: Við greiðum ekki skuldir óreiðumanna! Gott og vel. Að vísu var ekki alveg ljóst þegar þetta Icesave kom upp hversu mikið væri til hjá þrotabúinu en nú er alveg ljóst að EKKI EIN EINASTA KRÓNA hefði fallið á ríkissjóð.

Við hefðum fengið fyrr hærra lánsfjármat hjá Fitch og fleirum hefði þetta mál verið strax afgreitt. En þjóðin valdi verri kostinn: hafa allt í lausu lofti og óreiðuna sem lengst!

Lilja er ekki sérlega heppin í sinni pólitík. Hún hefur einnig fallið í þá freistni að gerast popularisti.

Góðar stundir!

Guðjón Sigþór Jensson, 19.2.2012 kl. 00:37

6 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Guðjón ef þú ert að tala um síðasta Icesavesamninginn þá erum við líka sammála. Við áttum að samþykkja hann. Það var og er  mitt mat.

 Lítum á ákvaranir Ólafs Ragnars varðandi það að vísa málum til  þjóðaratkvæðagreiðslu. 

 1. Fjölmiðlafrumvarpið. Það var mjög umdeilt í upphafi, og margir sáu það snúast um ein mann Davíð Oddson og baráttu hans við Baug. Fjölmiðlafrumvarpið fór síðan í Allsherjarnefnd og þaðan kom það í sátt allra flokka. Það hefði m.a. gert það ómögulegt að einn maður, útrásarvíkingur, sem við flest teljum hafa framið glæp gagnvart þjóðinni, skuli nú enn ráða helming fjölmiðla landsins. Ólafur Ragnar fær ekki háa einkunn fyrir þessa framgögnu í ljósi sögunnar og tengsla hans við útrásarvíkinganna. 

2.  Icesave II, hér held ég að aðeins þeir heittrúuðu í stjórnarliðinu haldi því fram að inngrip forsetans hafi ekki verið björgun. 

3. Icesave III, var hugsanlega hægt að leiða líkur á að væri vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu, í ljósi fyrri ákvarðana. Það hefði verið meiri viska af Ólafi að láta staðar numið. 

Í stað þess að skoða málin út frá hagsmunum flokkanna, vll ég frekar líta á þá í ljósi hagsmuna þjóðarinnar. Með lýðræðislegri rökræðu komumst við oft að skynsamlegri niðurstöðu. Hér fyrir nokkrum árum var virkjun vatnafalla bara til hins góða svo og gufu. Álver áttu að bjarga þjóðinni. Við sem viljum leggja áherslu á uppbyggingu atvinnulífsins getum líka verið harðir umhverfissinnar. 

Sigurður Þorsteinsson, 19.2.2012 kl. 08:23

7 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Guðjón aðeins varðandi Lilju, þá hefur hún sannarlega þekkingu á hagfræði. Það hefði verið mikil skynsemi af Steingrími að nýta sér þekkingu Lilju. Steingrímur valdi gömlu leiðina. Lilja Ríkey Magnúsdóttir með barnaskólaprófið tekur við formennsku í Efnahags og viðskiptanefnd af Lilju Mósedóttur sem er með doktorspróf í faginu. Vandamál VG undir stjórn Steingríms Sigfúsonar er að hlýðni við formanninn er sett ofar í áherslulistann en nýting faglegrar þekkingar. Það að Atli Gísla og Ásmundur Daði hafi einnig yfirgefið skútuna bendir til þessa ástands. Þá eru Ögmundur og Guðfríður Lilja ekki oft höll undir flokksagann. 

Sigurður Þorsteinsson, 19.2.2012 kl. 08:37

8 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Varðandi fyrri aths.:

1. Hefði Davíð beitt sér fyrir rannsóknum á breiðari grundvelli t.d. gagnvart Kaupþingi þá hefði hann fengið meiri hljómgrunn. Hann valdi þá leið að taka út aurana úr bankanum sem prívatmaður en ekki beita áhrifum sínum sem valdsmaður við rannsókn  hvað var að gerast í Kaupþingi. Þar var á þessum tímapunkti greinilega ekki allt með felldu.

Varðandi 2. og 3. lið þá hefur komið í ljós að nægar innistæður voru í Landsbankanum. Það var ákvörðun Ólafs Ragnars að beita sér fyrir auknum vinsældum með skírskotun til tilfinningaraka en engin skynsamleg rök voru fyrir henni.

Seinni aths.:

Þó svo að Lilja hafi hagfræðilega menntun þá er það ekki þar með sagt að hún þekki þessi mál betur en maður með venjulegt brjóstvit. Bent er á að flokkseinræði ríki innan VG. Þetta tel eg ekki vera rétt enda er þessum málum ekki eins háttað og í Sjálfstæðisflokknum undir stjórn Davíðs. Þar taldi fjöldinn að nóg væri að einn maður, ein skoðun, einn vilji væri nóg. Innan VG ríkir mikið lýðræði. Þar eru mál rædd fram og til baka oft tekur óratíma að taka ákvörðun. Eg var á flokkráðsfundi þar sem ágreiningurinn kom milli þremenninganna og stjórnar VG. Ágreiningsefnið var EKKI hvernig taka ætti á skuldavanda heimilanna, heldur tillaga þremenninganna að draga viðræðunefndina við EBE til baka og hætta öllum viðræðum. Um þetta urðu eðlilega miklar deilur sem frægt er. Tillaga kom fram að þremenningarnir drægju tillögu sína til baka en ekki kom til þess að reyna á hana. Tillaga þeirra þriggja var felld með þó nokkuð fleiri atkvæðum. Eftir þetta fóru þau einkum Lilja að ræða meira um fjárhagsvanda heimilanna sem auðvitað má ræða fram og til baka hvaða leið kemur best til greina.

Eigum við ekki að hafa það sem réttar er en ekki hætta okkur inn á sprengjusvæði sem oft er ekki auðvelt að finna rétta leið út úr.

Góðar stundir!

Guðjón Sigþór Jensson, 19.2.2012 kl. 10:25

9 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Guðjón

1. a) Fjölmiðlafrumvarpið fjallaði aðallega um eignarhald af fjölmiðlum. Steingrímur Sigfússon hafði  allnokkru áður rætt málið á þingi og lýst hættunni á því að fjölmiðlar færu á of fáar hendur. Á þessum tíma hafði Jón Ásgeir Jóhannesson og félög sem hann hafði með að gera náð eignarhaldi rúmlega 50% fjölmiðla landsins. Það þarf ekki skýra hugsun til þess að sjá fáránleika þess. Fyrst var haldið að Jón beitti sér ekki gangvart fjölmiðlunum, svo var því haldi fram að hann beitti sér ekki innan bankanna eins og Glitni. Hvort tveggja hefur sagan sagt okkur að var rangt. Hatur vinstri manna á Davíð Oddsyni blindaði þeim hins vegar sýn. Eftir að sátt náðist í Allsherjarnefnd og frumvarpið samþykkt á Þingi, neitaði Ólafur Ragnar að skrifa undir það. Á sama tíma var Ólafur Ragnar hirðdansari útrásarvíkinganna. Jón Ásgeir beitti fjölmiðlum sínum af fullu afli í þessu máli. Þeir sem sungu með, skammast sín margir fyrir hjarðhugsunina. 

1 b) Davíð mótmælti ofurlaunum og bónusum í Kaupþingi.  Ég vil skora á þig að skoða hvernig fjölmiðar og vinstri vængurinn fjallaði um þetta mál  á sínum tíma. Sjálfsagt hefði Davíð mátt ganga lengra. 

 2. Icesave I og II, er ekki hægt að blanda saman við Icesave III

Icesave I var það samkomulag sem Svavar Gestsson kom með frá Bretlandi. Það samkomulag ætluðu Steingrímur og Jóhanna að keyra í gegnum Alþingi án þess að þingmenn fengju að sjá samkomulagið. Í öllum siðuðum ríkjum hefðu þau sagt af sér fyrir framkomuna gagnvart Alþingi og þjóðinni. 

Nokkrum stjórnarþingmönnum tókst að laga frumvarpið örlítið en þó ekki meira en svo að það hefði kostað þjóðina hundruði milljarða króna útgjöld. Þetta var Icesave II. Þetta felldi þjóðin í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að Ólafur neitaði að staðfesta lögin.

Icesave III var samkomulag eftir að við fengum til erlenda sérfræðinga, auk manna  eins og Lárusar Blöndal. Við erum sammála um að það samkomulag hefði verið æskilegt að staðfesta. Þá hefði þetta mál verið búið nú.

Varðandi sérfræðimenntun þá sjáum við þau mál á örlítið annan hátt. Að sjálfsögðu þekkir Lilja Mósesdóttir mun betur til þessa málaflokks en Lilja Ríkey. Það er himin og haf þar á milli. Það þýðir hins vegar ekki að aðrir eigi ekki að hafa skoðanir á þeim málaflokki. Læknar hafa yfirleitt meiri þekkingu á sjúkdómum og meðferð á þeim en almenningur, þó engin ástæða sé til þess að við eigum að vera skoðanalaus. 

Þegar líða tók á feril Davíðs Oddsonar fór ákveðinn hópur að dýrka foringjann, gagnrýnislaust. Það var hvorki gott fyrir þjóðina, né hann sjálfan. Það lið sem hataði Davíð sýndi oft samskonar villu. 

Þeir sem lengi hafa verið á Alþingi segja að þrátt fyrir allt lýðræðistal, þá hafi flokksræði aukist. Þar hafa þau Steingrímur og Jóhanna sýnt veikleika sem leiðtogar. 

Ég dvel árlega nokkrar vikur í Nurnberg í  Þýskalandi. Eitt sinn spurði ég mikinn reynslubolta mér náinn, af hverju þjóðverjar studdu Hitler eins mikið og raun ber vitni. Hann lýsti því hvernig foreldrar hans og systkini tóku strax afstöðu gegn Hitler og fóru í gegnum  hremmingar, svo lauk hann máli sínu með því að segja: ,, Í hvert skipti, sem þú styður flokkinn þinn, eða flokksformann, þegar samviska þín segir annað, styður þú Hitlera allra tíma".

Sigurður Þorsteinsson, 19.2.2012 kl. 13:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Þorsteinsson

Höfundur

Sigurður Þorsteinsson
Sigurður Þorsteinsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Þor
  • Þor
  • Birna Einarsdóttir
  • Birna Einarsdóttir
  • kjöt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband