Um daginn þegar þetta mál kom upp höfðu þessir menn allir tækifæri til að komast frá þessu máli með reisn og í örfáar klukkustundir virtist sem svo að þeir ætluðu sér það með sameiginlegri yfirlýsingu allra stjórnarmanna. Undirritaður var meira að segja ánægður með framgöngu Flosa í sjónvarpsviðtali sem ég viðurkenni að gerist ekki oft. En nei, óttinn við að taka afleiðingum gerða sinna, freistingin að berja meira á Gunnari eða einhverjar aðrar hvatir urðu greinilega sómatilfinningunni yfirsterkari og allir bentu þeir fingri að Gunnari, einn af öðrum. Fyrst Flosi Eiríksson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, þá Ómar Stefánsson oddviti og bæjarfulltrúi framsóknarmanna og síðast Jón Júlíusson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.
Nú þegar búið er að afhjúpa þá hafa þeir enn tækifæri til að ganga fram og gera hreint fyrir sínum dyrum. Kannski ekki með reisn í þetta skiptið en ég sting upp á iðrun í staðinn. Verði hún djúp og einlæg mun ég fyrir mína parta reyna að vera nógu stór í mér til að fyrirgefa þeim. Ég býst nú samt ekki við slíkum viðbrögðum heldur fremur að þeir reyni að þegja málið í hel og lauma frá sér yfirlýsingum um rangar upplýsingar og slæma miðlun þeirra.
Þá reynir á þá aðila sem harðast hafa gengið fram í siðapredikunum undanfarnar vikur. Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar, hefur verið óþreytandi við að ráðast á Gunnar I. Birgisson og fjölskyldu hans, allt undir yfirskini siðferðis jafnvel þó að ekkert hafi sannast á hann, hvorki rangfærslur, lygar né rangar embættisfærslur. Hvar er hún nú þegar klárt er að hennar eigin bæjarfulltrúar hafa villst af leið sannleikans og eru uppvísir að því að herma ranglega lygar upp á Gunnar og fleiri. Hún ætti kannski að skoða hvort bæjarfulltrúunum hennar er sætt í bæjarstjórn meðan þeir sæta lögreglurannsókn og hafa að auki gengið fram með fremur ósmekklegum hætti til að reyna að fría sig ábyrgð á kostnað annarra. Ég bíð spenntur ásamt fleiri Kópavogsbúum, án þess þó að halda niðri í mér andanum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.