Eiga bæjarfulltrúar í Kópavogi að sitja?

Það vakti nokkra athygli þegar blaðamaður Morgunblaðsins fór yfir tölvupósta sem höfðu farið á milli stjórnarmanna og framkvæmastjóra Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar. Áður höfðu  3 bæjarfulltrúar Kópavogsbæjar, þeir Flosi Eiríksson, Ómar Stefánsson og Jón Júlíusson gefið þær upplýsingar að þeir hafi verið blekktir af framkvæmdastjóra lífeyrissjósins, og formanni stjórnar sjóðsins, fyrrverandi bæjarstjóra. Niðurstaða blaðamanns var að stjórnarmennirnir hafi fengið öll gögn og bæjarfulltrúarnir þrír farið með rangt mál. Síðan þá hafa bæjarfulltrúarnir þrír verið þögulir um málið. Munu fjölmiðlar fylgja þessum máli eftir? Eða er þetta allt í lagi, því þetta sé pólitík? Verum minnug að bæjarfulltrúarnir þrír eru einnig að saka framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins um blekkingar og ólöglegt athæfi. Framkvæmdastjórinn hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem afstaða bæjarfulltrúanna er hörmuð og málið sagt notað í flokkspóltískum tilgangi. Nú hafa verið skrifaðar þrjár greinar um málið og verður áhugavert að fylgjast með framgangi þess.
Hvað nú, Flosi, Ómar og Jón?
 joi
Jóhann Ísberg

 

Um daginn þegar þetta mál kom upp höfðu þessir menn allir tækifæri til að komast frá þessu máli með reisn og í örfáar klukkustundir virtist sem svo að þeir ætluðu sér það með sameiginlegri yfirlýsingu allra stjórnarmanna. Undirritaður var meira að segja ánægður með framgöngu Flosa í sjónvarpsviðtali sem ég viðurkenni að gerist ekki oft. En nei, óttinn við að taka afleiðingum gerða sinna, freistingin að berja meira á Gunnari eða einhverjar aðrar hvatir urðu greinilega sómatilfinningunni yfirsterkari og allir bentu þeir fingri að Gunnari, einn af öðrum. Fyrst Flosi Eiríksson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, þá Ómar Stefánsson oddviti og bæjarfulltrúi framsóknarmanna og síðast Jón Júlíusson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar.

 

Nú þegar búið er að afhjúpa þá hafa þeir enn tækifæri til að ganga fram og gera hreint fyrir sínum dyrum. Kannski ekki með reisn í þetta skiptið en ég sting upp á iðrun í staðinn. Verði hún djúp og einlæg mun ég fyrir mína parta reyna að vera nógu stór í mér til að fyrirgefa þeim. Ég býst nú samt ekki við slíkum viðbrögðum heldur fremur að þeir reyni að þegja málið í hel og lauma frá sér yfirlýsingum um rangar upplýsingar og slæma miðlun þeirra.

 

Þá reynir á þá aðila sem harðast hafa gengið fram í siðapredikunum undanfarnar vikur. Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar, hefur verið óþreytandi við að ráðast á Gunnar I. Birgisson og fjölskyldu hans, allt undir yfirskini siðferðis jafnvel þó að ekkert hafi sannast á hann, hvorki rangfærslur, lygar né rangar embættisfærslur. Hvar er hún nú þegar klárt er að hennar eigin bæjarfulltrúar hafa villst af leið sannleikans og eru uppvísir að því að herma ranglega lygar upp á Gunnar og fleiri. Hún ætti kannski að skoða hvort bæjarfulltrúunum hennar er sætt í bæjarstjórn meðan þeir sæta lögreglurannsókn og hafa að auki gengið fram með fremur ósmekklegum hætti til að reyna að fría sig ábyrgð á kostnað annarra. Ég bíð spenntur ásamt fleiri Kópavogsbúum, án þess þó að halda niðri í mér andanum.


Ábyrgð kjörinna fulltrúa
gussa

Guðríður Arnardóttir
JÓHANN Ísberg kallar eftir viðbrögðum mínum í Morgunblaðinu þann 30. júní vegna málefna Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar og þá hver afstaða mín sé gagnvart hlut Flosa Eiríkssonar og Jóns Júlíussonar, bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar sem eiga sæti í stjórn sjóðsins. Mér er bæði ljúft og skylt að svara Jóhanni.
Jón Júlíusson situr ekki í stjórn LSK sem pólitískur fulltrúi, hann situr þar fyrir hönd Starfsmannafélags Kópavogsbæjar og situr því ekki í umboði Samfylkingarinnar. Flosi Eiríksson situr aftur á móti sem kjörinn fulltrúi í stjórninni og því eðlilegt að ég taki afstöðu til vinnubragða hans í málinu.

Frétt Morgunblaðsins á laugardaginn var því byggð á röngum upplýsingum. Á stjórnarmönnum í LSK hvílir ekki rannsóknarskylda. Það þýðir að ekki er gerð sú krafa um að þeir sannreyni hvort gögn sem þeim eru afhent af framkvæmdastjóra eða stjórnarformanni séu rétt. Þeir eiga eðilega að treysta því að allt sé satt og rétt sem að þeim er rétt.

 

Málefni lífeyrissjóðsins eru því tvíþætt: Annars vegar liggur fyrir að lánveitingar til Kópavogsbæjar fóru yfir 10% hámark af heildareignum sjóðsins en það gerðist þegar eignasafn sjóðsins féll í bankahruninu og lán sem var undir 10% hámarkinu í október varð hærra hlutfall af heildareignum sjóðsins þegar eignasafnið rýrnaði. Þetta var öllum stjórnarmönnum kunnugt um og ekki um það deilt.

 

Hins vegar virðist vera að gögn hafi sérstaklega verið matreidd ofan í FME sem sýndu aðra skuldastöðu bæjarins við sjóðinn en raunin var. Stjórnarmenn lásu yfir drög að bréfi sem átti að senda Fjármálaeftirlitinu og Flosi Eiríksson m.a. gerði athugasemd við þau í tölvupósti. Þau drög voru ekki send óbreytt áfram til Fjármálaeftirlitsins heldur hafði verið bætt við texta bréfsins fullyrðingum sem breyta í grundvallaratriðum innihaldi þess. Á því bera stjórnarmenn enga ábyrgð.

 

Eins og öllum má vera ljóst bera almennir stjórnarmenn og svo formaður stjórnar mismikla ábyrgð. Formaður stjórnarinnar, bæjarstjóri í þessu tilfelli, ber ábyrgð á samskiptum stjórnarinnar við Fjármálaeftirlitið. Stjórnarmenn byggja ákvarðanir sína á þeim gögnum sem þeir fá í hendur og þeir verða að geta treyst því að þau séu rétt. Bregðist það er ekki við þá að sakast. Ég vil vekja athygli á því að fyrrverandi bæjarstjóri og stjórnarformaður lífeyrissjóðsins varð að hverfa úr starfi bæjarstjóra vegna óeðlilegra viðskipta bæjarins við fyrirtæki dóttur hans. Það var ákveðið áður en mál lífeyrissjóðsins kom upp. Hann hefði horfið úr starfi hvort sem var. Hann hefur hins vegar kosið að tengja brotthvarf sitt fremur við lífeyrissjóðsmálið. Nú er vonandi mál að linni um sinn. Mörg brýn verkefni sem hafa legið á ís undanfarnar vikur bíða úrlausnar bæjarstjórnar Kópavogs. Nú þegar rykið sest og aftur kemst á vinnufriður í bæjarstjórn mun ekki standa á fulltrúum Samfylkingarinnar að vinna að góðum málum í þágu Kópavogsbúa en við munum nú sem fyrr standa vaktina og láta í okkur heyra þegar tilefni er til.

 
Tvöfalt siðgæði

 

gunni birgis

Gunnar Birgisson
GUÐRÍÐUR Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi, telur sig þess umkomna, að segja öðrum til í siðferðislegum efnum vegna málefna Lífeyrissjóðs starfsmannafélags Kópavogs, þótt þeir séu ekki einu sinni í sama stjórnmálaflokki og hún. Þegar kemur að samflokksmönnum hennar, gildir hinsvegar tvöfalt siðgæði.

 

Dómgreind eða dómgreindarbrestir Jóns Júlíussonar, bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar, sem á sæti í stjórn lífeyrissjóðsins sem nú sætir lögreglurannsókn, kemur Guðríði ekki við, því að Jón er í lífeyrissjóðnum í umboði starfsmanna, ekki flokksins. Það fer eftir því, á hvorri öxlinni hann ber kápuna, hvort hún vill kannast við kauða eða ekki.

 

Hún getur ekki með sama hætti afsalað sér ábyrgð á Flosa Eiríkssyni, sem er hinn bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í stjórn lífeyrissjóðsins, því að hann er þar í umboði flokksins. Þá veifar hún frekar röngu tré en öngu.

 

Í Morgunblaðsgrein segir hún, að bréfi til Fjármálaeftirlitsins hafi verið breytt í grundvallaratriðum án vitneskju annarra stjórnarmanna sjóðsins en mín. Það er út af fyrir sig alveg rétt hjá henni, að drögin að bréfinu fóru ekki óbreytt frá lífeyrissjóðnum. Fyrst var tekið tillit til allra athugasemda Flosa um málfar og efni og þeirri einu setningu bætt við, að fjárfestingar á árinu 2008 hafi verið í samræmi við lög. Sú breyting á bréfinu skiptir engu máli, hvað þá öllu máli, eins og Guðríður vill vera láta. Auk þess var bréfið lagt fyrir á stjórnarfundi síðar, án þess, að nokkrar athugasemdir kæmu fram.

 

Þar sem Guðríður lætur undir höfuð leggjast að verja bæjarfulltrúa sína með sómasamlegum hætti, skal ég taka að mér að árétta, að lánveitingar úr sjóðnum til bæjarsjóðs voru ákveðnar með hagsmuni sjóðsfélaga að leiðarljósi. Fjármálamarkaðurinn var hruninn, en bærinn vel rekinn og gat hvenær sem var, án fyrirvara, endurgreitt lánið. Ég hef líkt þessu við að bjarga búslóð úr brennandi húsi.

 

Ég vék sæti sem bæjarstjóri og bæjarfulltrúi, því að mér þótti það rétt siðferðileg ákvörðun meðan á lögreglurannsókn stendur. Ég vék ekki sæti út af neinu öðru. Hinir bæjarfulltrúarnir þrír, sem störfuðu með mér í stjórninni, verða að eiga við sjálfa sig og samvisku sína, hvort þeim finnist að annar siðferðilegur mælikvarði eigi að gilda um þá en mig.




« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Þorsteinsson

Höfundur

Sigurður Þorsteinsson
Sigurður Þorsteinsson
Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • Þor
  • Þor
  • Birna Einarsdóttir
  • Birna Einarsdóttir
  • kjöt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband