Dýrar tilraunir gerðar
Hinn hagfræðingurinn er Jónas H. Haralz og er greinin útdráttur úr ræðu á landsfundi 1973, »Frjálshyggjan er forsenda valddreifingar«. Hann fjallar eins og Ólafur um yfirburði frjáls vals á markaði, sem leiði í senn til sem mestrar uppfyllingar þarfa fólks og hagkvæmustu framleiðslu þjóðfélagsins. Síðan undirstrikar hann að »svar frjálshyggjunnar er ekki eingöngu fólgið í frjálsu markaðskerfi. Starfsemi einstaklinga og fyrirtækja verður að vera innan sérstaks ramma sem ríkisvaldið er ábyrgt fyrir. Þessi grundvöllur felur í sér löggjöf og þjónustu í mörgum greinum. Umfram allt felur það í sér að fylgt sé samræmdri stefnu í efnahagsmálum, í fjármálum og peningamálum fyrst og fremst. Annars verður ekki komist hjá hagsveiflum, verðbólgu eða kreppum og atvinnuleysi«. Jónas heldur áfram: »Það myndi ekki koma mér á óvart að fyrir komandi kynslóð lægi að koma auga á yfirburði frjálshyggjunnar í miklu ríkari mæli en hún virðist gera sem stendur. En áður en það verður getur verið að dýrar tilraunir hafi verið gerðar, alvarlegir árekstrar orðið og mikil verðmæti farið í súginn, af því að ekki var hirt um að kynna sér reynslu fyrri tímabila né nægileg rækt lögð við að túlka ný viðhorf í ljósi þeirrar reynslu.« Þessi 36 ára gömlu orð Jónasar eru athyglisverð í ljósi nýlegra atburða.
Blandað hagkerfi
Hagstjórn okkar verður að miðast við »blandað hagkerfi«. Það eru fleiri en sjálfstæðismenn sem hafa komið að þessari »blöndu«. Við búum t.d. enn við »sovétskipulag« í heilbrigðismálum, þar sem markaðskerfinu er kippt úr sambandi og þessi mikilvægi rekstur gerður að bagga á ríkissjóði. Þó »moðið á miðjunni« sé leiðinlegt verðum við að sætta okkur við staðreyndir. Hugmyndafræði má ekki rugla hagstjórn. Ríkið á að tryggja að ákveðnir hlutir séu gerðir og stunda eftirlit. Að menn virði t.d. lög og rétt og ógni ekki almannaheill.
Skeið vaxtar og velgengni
Mesta hagvaxtarskeið í sögu landsins endaði með ósköpum. Frjálsræðið reyndist sumum ofviða. Erlendir bankar sýndu mikið ábyrgðarleysi. Stjórnvöld gættu ekki að aðhaldi og aga í peninga- og ríkisfjármálum. Frelsi er samt án vafa besta leiðin í atvinnulífinu, en frelsi kallar jafnframt á aga og ábyrgð. Frelsi sem ábyrgð fylgir þarf að leysa oftrú á afskiptaleysi af hólmi. Hagsveiflur eiga ekki að vera stóráföll, aðeins úrlausnarefni. Til að komist verði hjá kröppum hagsveiflum þarf stjórn peninga- og fjármála ríkisins að vera styrk. Á meðan helstu gjaldmiðlar stóðu á »gullfæti« var verðlag stöðugt. Líta má til ca. 150-200 ára fyrir Kreppuna miklu í þeim efnum. Hagsveiflan var á þessum tíma tekin út í atvinnustiginu og velferð ekki hátt skrifuð. Ef lítið hagkerfi tekur upp stóran gjaldmiðil er þar komið á slíku ástandi. Sumum finnst það heilbrigðara en verðbólga, en það er a.m.k. harðneskjulegri hagstjórn en við eigum að venjast. Við setjum frekar hugmyndir um ábyrgð, velferð og farsæld í öndvegi í hagstjórn.
Frelsi sem ábyrgð fylgir
Ég hygg að Ólafur hefði skrifað upp á textann og Jónas var á landsfundinum, þar sem ályktað var: »Allt frelsi kallar á aga og ábyrgð. Starfsemi einstaklinga og fyrirtækja verður þannig að vera innan marka sem ríkisvaldið er ábyrgt fyrir. Þessi mörk fela í sér lög, reglur og eftirlit, en umfram allt fela þau í sér að fylgt sé samræmdri stefnu í efnahagsmálum, einkum í fjármálum ríkisins og peningamálum. Standa verður vörð um viðskiptafrelsi. Ríkisvaldið á að tryggja að menn virði lög og reglur og ógni ekki almannaheill. Við verðum að læra af reynslu fyrri tímabila og túlka ný viðhorf á hverjum tíma í ljósi þeirrar reynslu. Sjálfstæðisflokkurinn mun áfram vinna að hugsjónum um frelsi sem ábyrgð fylgir og setja hugmyndir um ábyrgð og farsæld í öndvegi, þar á meðal í hagstjórn.« Skerpt hefur verið á stefnunni. Ekki er líklegt að þær áherslur gleymist á næstunni.