Grein Lilju í Fréttablaðinu

lilja_mosesdottir.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lilja Mósesdóttir er einn af þeim alþingismönnum sem hvað líklegastir eru til þess að finna lausnir sem duga í endurreisn Íslands. Hún skrifar athyglisverða grein í Fréttablaðinu í dag. 

 

Tími til að standa á eigin fótum

Fram til þessa hefur okkur tekist að ná frekar mjúkri lendingu hagkerfisins með m.a. gjaldeyrishöftum, hallarekstri ríkissjóðs og frystingu lána fyrirtækja og heimila. Nú er komið að tímamótum í endurreisninni og orðið tímabært að standa á eigin fótum. Byrja verður á að segja samningum við AGS upp áður en til þriðju endurskoðunar kemur. Samhliða því þarf að grípa til aðgerða sem örva efnahagslífið, þannig að það komist sem fyrst upp af botninum. Slíkar aðgerðir eru veruleg vaxtalækkun, almenn niðurfærslu lána og hægfara aðlögun ríkisútgjalda.

Tími AGS liðinn

Upphaflegi samningurinn við AGS gerði ráð fyrir að hann tæki enda 30. nóvember nk. en nú er búið að framlengja hann um 9 mánuði eða til loka ágúst 2011. Töfin er tilkomin vegna tilrauna til að beita Íslendinga þrýstingi í Icesave-deilunni. Hlutverk AGS hér á landi er fyrst og fremst að tryggja að Íslendingar greiði upp sem mest af skuldum sínum. Ef það er ekki mögulegt, þá þarf að tryggja að fjármagnseigendur fái nógu háar vaxtagreiðslur. Samningurinn við AGS er í raun fullveldisafsal. Allar ákvarðanir á sviði peningamálstefnunnar, ríkisfjármála og fjármálakerfisins þarf að bera undir sjóðinn áður en þær eru teknar.

Gjaldeyrisvarasjóðurinn er að ná þeirri stærð sem að var stefnt með lánum frá AGS og vinaþjóðunum. Hann er nú um 700 milljarðar, þrátt fyrir að AGS og vinaþjóðirnar eigi enn eftir að lána okkur helminginn af umsamdri upphæð, þ.e. 600 milljarðar. Í dag getum við endurfjármagnað lán fram á árið 2012 sem er lengra tímabil en flestar aðra Evrópuþjóðir geta státað sig af. Við verðum að læra af sögu annarra þjóða og forðast skuldasöfnun með sífellt þyngir vaxtagreiðslur. Vextir á ári af gjaldeyrisvarasjóði sem fenginn er að láni og nemur um 50% eru 24 milljarðar. Spörum 12 milljarða og hættum frekari lántöku hjá AGS og "vinaþjóðum".

Vextir keyrðir niður

Síðustu 3 mánuði hefur verðlag lækkað um 2,3% en slíkt ástand er kallað verðhjöðnun. Verðhjöðnun er merki um að fjárfestar og neytendur haldi að sér höndum en það gerist yfirleitt í kjölfar bankahruns. Ef vextir eru ekki lækkaðir verulega, þá er hætta á að hagkerfið festist í neikvæðum vítahring sífellt meiri samdráttar. Stýrivextir eru nú 7% og vaxtalækkanir peningastefnunefndar hafa verið alltof litlar fram til þessa, ekki síst í ljósi þess að þær hafa ekki áhrif fyrr en eftir 6-8 mánuði. Verðhjöðnun sem nemur 2,3% mun þýða að raunvextir verða rúm 9% sem er alltof hátt ekki síst vegna þess að meirihluti íslenskra fyrirtækja er tæknilega gjaldþrota. Íslensk fyrirtæki gera því lítið annað en að afla tekna fyrir vaxtagreiðslum.

Ef okkur á að takast að komast hratt upp af botni kreppunnar, þá verður að lækka stýrivexti niður í a.m.k. 2%. Slík stýrivaxtalækkun mun draga verulega úr útgjöldum Seðlabankans sem hefur hingað til þurft að greiða viðskiptabönkunum 35 milljarða á ári í vaxtagreiðslur vegna þess að þeir eru fullir af peningum og hagkvæmara er fyrir þá að leggja peninga inn á reikning Seðlabanka en að lána skuldsettu atvinnulífi. Gjaldeyrishöftin munu koma í veg fyrir gengisfall krónunnar þegar stýrivextir fara niður fyrir 2% og halda áfram að vera skjól fyrir óróleika á alþjóðlegum mörkuðum. Rannsóknir geta ekki staðfest skoðun AGS að háir stýrivextir tryggi gengisstöðugleika, en markmið peningamálastefnu AGS er gengisstöðugleiki. Í ljósi reynslunnar af peningastefnu Seðlabankans er mikil bjartsýni að halda að hægt sé að afnema gjaldeyrishöftin og treysta á að stýrivextir komi í veg fyrir gengishrap krónunnar. Auk þess þarf ekki marga spákaupmenn og jöklabréfaeigendur til að ryksuga upp gjaldeyrisvarasjóðinn á örskömmum tíma.

Almenn skuldaleiðrétting

Stjórnvöld eiga að beita almennri aðgerð til að leiðrétta skuldir heimilanna. Ísland sker sig úr öðrum ríkum sem farið hafa í gegnum fjármálakreppu hvað varðar útbreiðslu verðtryggingar. Sérfræðingar sem rannsakað hafa fjármálakreppur fullyrða að verðbólgurýrnun óverðtryggðra lána hafi komið í veg fyrir að kreppan yrði enn dýpri, þ.e. varnað enn fleiri gjaldþrotum einstaklinga og fyrirtækja. Gjaldþrot eru kostnaðarsöm fyrir samfélagið, þar sem fleiri neyðast til að afla tekna í svarta hagkerfinu og gjaldþrota fyrirtæki eru töpuð atvinnutækifæri. Við slíkar aðstæður aukast líkurnar á að heimili fólks, fyrirtæki og auðlindir fari á brunaútsölu. Almenn aðgerð er í samræmi við anda norræna velferðarkerfisins, þar sem áhersla er lögð á að allir sem orðið hafa fyrir sama tjóni fái sömu leiðréttingu en síðan er skattkerfið notað til að ná til baka af þeim sem ekki þurftu á aðstoð að halda. Sértækar aðgerðir eru dýrar og tímafrekar í framkvæmd og ekki í samræmi við ráðleggingar sérfræðinga um að mikilvægt sé að ná fram leiðréttingu skulda fljótt ef skuldavandinn á ekki að tefja endurreisnarferlið.

Hægari niðurskurður

Mikilvægt er að ná niður hallanum á ríkissjóði til lækka vaxtaútgjöld hans. Á þessu ári greiðir ríkið 1 krónu af hverjum 5 krónum í vexti sem er óviðundandi ástand þegar til lengdar lætur. Ríkisstjórnin hefur kynnt niðurskurð á næsta ári sem á að nema um 34 milljörðum. Niðurskurður eykur samdráttinn í efnahagslífinu, minnkar tekjur ríkissjóðs og eykur útgjöld til atvinnuleysistryggingasjóðs. Niðurskurður mun komast verst niður á þeim sem hvað veikasta stöðu hafa í samfélaginu, þ.e. öryrkjum, sjúklingum, börnum og atvinnulausum. Kostnaðarminnsta leiðin til að ná hallanum á ríkissjóði niður er að flýta skattlagningu séreignasparnaðarins. Halli ríkissjóðs er um 90 milljarðar en ríkið á inni hjá þeim sem eiga séreignasparnað um 100 milljarða í ógreidda skatta sem myndu þá renna til ríkissjóðs á næsta ári. Skattlagningu séreignasparnar má líkja við vaxtalaust lán, þar sem framtíðarskattgreiðendur geta ekki treyst á að ríkið fái skatt þegar séreignasparnaður er greiddur út. Þó má ekki gleyma, að greiðsla skatts af inngreiddum séreignasparnaði mun síðan þýða á bilinu 10-13 milljarða tekjuauka fyrir ríkissjóð á næstu árum.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Ingvarsson

því miður verður ekki nein ein 'manneskja' sem finnur leiðina útúr þessari kreppu. Það eru ekki margir möguleikarnir sem blasa við.

Það sem er athyglisvert við málflutning Lilju er að hún er í klárri stjórnarandstöðu í málflutningi sínum. Ég vil ekki kasta rýrð á þann málflutning enda á stjórnarstefnan á fá reglulega gagnrýni.

Lilja telur að viðbrögð stjórnvalda frá október 2008 hafi verið vafasöm í besta falli og núna alveg óþörf. Segja á upp AGS samningnum enda rýrir hann fullveldi ríkisins. Það grátbroslega í þessari stöðu er það að stjórnvöld virðast ekki eiga neinn annan kost en einmitt að framlengja AGS samstarfið nema það eigi að skifta alveg um áætlun frá því sem nú er unnið eftir. Það þarf meira en góð orð Lilju til að skifta um stjórnarstefnu. Til þess þarf nýja stjórn umfram allt. Slík stjórn er því miður ekki fyrirsjáanleg á pólitískum sjóndeildarhring.

Samt þetta. Stikkorðin: Almennar aðgerðir, skattlagning séreignalífeyrissparnaðar og samningsslit við AGS eru allt góð og gegn rök frá stjórnarandstöðunni allt síðastliðið þing. Auðvitað þvert á þá stefnu sem stjórnin viðurkennir og fer eftir.

Ergo: Lilja er í klárri stjórnarandstöðu hvað efnahagsmálin varðar.

Gísli Ingvarsson, 7.9.2010 kl. 18:26

2 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Við getum alveg verið sammála um að það er ekki líklegt að einræði, leiði til áragri í stöðunni. Heldur ekki kattarsmölun.

Það er líklegt að við efnahagslegum vandamálum, geti þekking á hagfræði verið gagnleg. Forystumenn ríkisstjórnarinnar virðast ekki á því.  

Sigurður Þorsteinsson, 7.9.2010 kl. 19:04

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Góð grein hjá Lilju, enda hagfræðingur og nokkuð fær á því sviði. Þetta eiga fjármálaráðherra (jarðfræðingurinn) og forsætisráðherra (flugfreyjan) hins vegar erfit með að skilja.

Lilja bendir m.a. á að 1 af hverju 5 krónum fari í vexti, þetta er ótrúlega hátt hlutfall, þó erum við ekki að borga okurvextina til breta og hollendinga sem fjármálaráðherra er svo æstur að fá endilega að greiða! Væntanlega til þess eins að þóknast samfylkingunni og hjálpa henni við inngönguna í ESB.

Lílja fjallar um skattlagningu séreignalífeyrissparnað, nokkuð sem fjármálaráðherra má ekki heyra minnst á vegna þess að hann telur þá hugmynd vera komna frá sjálfstæðisflokki! Þá má ekki einu sinni skoða hana, sama hversu góð hún er.

Lilja nefnir einnig almenna skuldaleiðréttingu, nokkuð sem fjármálaráðherra og forsætisráðherra hafa lagst algerlega gegn. Ástæðan er einkum sú að ekki sé rétt að leiðrétta hjá þeim sem ekki þurfi á leiðréttingu að halda. Það skapi misræmi! Hvað skapar meira misræmi en handvalin leiðrétting! Við sjáum hvernig sú aðferð virkar í raun, þeir sem mestan þátt áttu í hruninu og mestu stálu, fá einnig bestu fyrirgreiðslurnar!  Almenn leiðrétting er eina rökrétta aðferðin, en eins og með margt annað sem gott væri fyrir þjóðfélagið, ef hugmyndin er komin frá framsókn eða sjálfstæðismönnum er hún ekki til umræðu!!

Viðhorf fjármálaráðherra er stór hættulegt, það hefur skaðað okkur mikið og á eftir að skaða meira ef ekki verður tekið í taumana. Að maður í þessari stöðu við þessar aðstæður sem við erum í núna, skuli leyfa sér að kasta öllum góðum hugmyndum á glæ, vegna þess eins að hann heldur eða grunar að hugsanleg gæti hugmyndi verið komin frá því sem hann kallar "hrunflokkunum". Honum er þó sama þó hann sé í stjórn með einum af þessum svokölluðu "hrunflokkum" og hlýðir í einu og öllu formanni þess flokks!!

Gunnar Heiðarsson, 7.9.2010 kl. 20:51

4 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Lilja er fagmanneskja sem talar mannamál. Svoleiðis fólk er að sjálfsögðu óvinsælt og til vandræða í þeim viðbjóði sem íslensk pólitík er!

Haraldur Rafn Ingvason, 7.9.2010 kl. 23:49

5 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Gunnar og Haraldur. Tek undir með ykkur. Lilja hefur áunnið sér virðingu, ekki vegna þess að hún ekki alltaf sammála ríkisstjórninni. Heldur vegna þess að hún lætur fagleg sjónarmið vega þyngra en flokkshlýðni. Kjósendur eru ekki eins flokkshollir og áður. Það gerir meiri kröfur til stjórnmálamannanna. Framganga Lilju gefur okkur þá von að til séu stjórnmálamenn sem setji hagsmuni almennings ofar hagsmunum flokkana.

Sigurður Þorsteinsson, 8.9.2010 kl. 22:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Þorsteinsson

Höfundur

Sigurður Þorsteinsson
Sigurður Þorsteinsson
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Þor
  • Þor
  • Birna Einarsdóttir
  • Birna Einarsdóttir
  • kjöt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband