Spíralstjórnun

Fyrir mörgum árum sat ég í tímum hjá Gylfa Þ. Gíslasyni sem var viðskiptaráðherra frá 1958 til 1971, auk þess að vera menntamálaráðherra meginþorra af þeim tíma. Gylfi fjallaði um verðbólguþróun og sýndi okkur fram á spíral sem ekki væri hægt að stöðva. Verðbólguhraðinn á Íslandi var kominn vel yfir 100%. Ég spurði Gylfa hvort ekki væri hægt að ná samkomulagi milli verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda til þess að stöðva þennan spíral. Gylfi taldi það ómögulegt. Við tókumst á um þetta í nokkrar mínútur. Gylfa þótti afar vont, ef nemendur hans væru ósáttir og því áttum við langt spjall eftir fyrirlesturinn og urðum í lokin sáttir um að vera ósammála. Tveimur árum síðar var ég í flugvél á leið til Kaupmannahafnar, þá kemur Gylfi eftir ganginum í vélinni til mín og segir: ,,Þú hafðir þá rétt fyrir þér eftir allt saman". Þá hafði verið gerð þjóðarsátt og við áttum langt spjall um ,,það ómögulega" í efnahagstjórn. Ég kom hvergi nálægt þessari þjóðarsátt, en hugmyndir um lausnir kvikna þegar þeirra er þörf, oft hjá mörgum aðilum.

Þær aðstæður sem við vorum í þá voru leystar með því að við lyftum okkur yfir flokkapólitíkina, með mönnum eins og Guðmundi Jaka og Einari Oddi, auk fullt af öðrum úrvalsmönnum sem höfðu þann stórhug að láta hagsmuni almennings ráða fremur en flokkspólitískar skylmingar.

Við erum í einskonar pattstöðu nú. Ríkjandi vinstri ríkisstjórn sem þurfti að olnboga sig til valda. Framsóknarflokkurinn sem ætlaði sér í vinstri stjórn, sýndi frumkvæði með því að styðja minnihlutastjórn en fékk aðeins ónot fyrir. Sérstaklega er stirt á milli Framsóknar og Samfylkingar og traustið ekkert. Vinstri Grænir tóku þann pólinn að kenna Sjálfstæðisflokknum um efnahagshrunið, líka heimskreppuna,og Samfylkingin lagði áherslu á þann hluta styrkjamálsins sem snéri að Sjálfstæðisflokknum, á sama tíma og vera sjálf í slæmum málum, en tókst að fela það fram yfir kosningar. Traust á milli stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar er því mjög lítið og erfit að sjá að milli þessara aðila náist samstarf. Lausn á milli samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar virðist heldur ekki í sjónmáli. 

Spírall verðbólgunnar sem var að kollkeyra efahagslífinu á árum áður, er ekki að þjá okkur nú. Heldur spírall verðhjöðnunar, atvinnuleysis og gjaldþrota. Ástandið er slæmt þegar stjórnvöld viðurkenna ekki einu sinni verðhjöðnunina. Guðmundur Jaki og Einar Oddur notuðu nýja hugsun við áður óþekktar aðstæður og komu með lausn sem skilaði okkur miklum árangri. Auðvitað voru þeir ekki einir og eflaust hafa þeir haft góð teymi. Ef ég man rétt var Ásmundur Stefánsson kominn til starfa og hefur örugglega þá skilað sínu. Þeim spíral sem við nú erum í verður ekki stjórnað nema með gjörbreyttum aðferðum. Annað hvort verður það gert með vinnu nú, eða eftir nýja búsáhaldabyltingu í haust.


mbl.is Takmarka ábyrgð vegna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áríðandi auglýsing

Auglýst er eftir Röddum fólksins og leiðtoga hreyfingarinnar Herði Torfasyni. Hörður kom fram á laugardagsfundum í vetur, í misjöfnu veðri og kom skilaboðum frá fólkinu í landinu til ráðamanna. Þúsundum saman þyrptist fólkið á Austurvöll með spjöldin sín, pottana og pönnurnar og kallaði óhæf ríkisstjórn, seðlabankastjórann burt. Síðan kom ný ríkisstjórn og nú spratt vonin fram. Nú skildi taka á málunum. Síðan eru liðnir margir mánuðir og það eina sem fólkið hefur fengið í hendurnar er biðin. Fólkið vill aftur koma á Austurvöll. Því er auglýst eftir Herði Torfasyni. Síðast þegar til hans fréttist, var að hann sást laumast inn í þingflokksherbergi Vinstri Grænna, sem lengi hefur verið kallað ,,Byltingin". Síðan hefur ekkert til hans heyrst né spurst. Raddir fólksins eru vaknaðar aftur, og nú er leiðtogans leitað. Vonir eru bundnar við að hann finnist fyrir næsta fund. Þó eru til efasemdarraddir sem telja  að Hörður eigi ekki afturkvæmt og vísa í að ,, Byltingin étur börnin sín".


mbl.is Ný gjöld hækka tíu milljóna króna lán um 50 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aukin fagmennska á Alþingi?

Nokkrir af nýju þingmönnunum virðast ætla að koma með nýjar áherslur á Alþingi. Í því efnahagsástandi sem nú ríkir er fengur af Lilju Mósesdóttur inn á þing. Fram kemur í máli hennar að þeir hagfræðimenntuðu aðilar sem eru á Alþingi vilji láta meta afleiðingar þeirra mála sem liggja fyrir  þinginu, áður en þau eru afgreidd. ´

Það er mitt mat að við núverandi aðstæður hefði þjóðstjórn verið árangursríkust. Þannig hefðu samnýst sú þekking og reynsla sem á þinginu var. Skil það hins vegar að það hafi verið freistandi að fyrir vinstri flokkana að mynda stjórn, nú þegar tækifæri gafst til. Það var fyrirséð að sprenging yrði í vor. Það var eins og stjórnvöld væru þau einu sem teldu að slíkt gæti ekki gerst. Undiraldan fer vaxandi nú, og margt sem bendir til þess að veturinn verði núverandi stjórn afar erfiður.

Ef pólitíkin þarf að velja á milli valda og fagmennsku, velur hún völdin. Alveg sama hvaða flokkar eru  við völd.

Vonandi munu nýir þingmenn nýta sína fagþekkingu inn á þinginu, án tillits til flokkavaldsins.


mbl.is Allt tekið með í reikninginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningum stolið í tvígang.

Hlutverk fjölmiðla er að upplýsa, greina og gagnrýna. Hvernig tekið er á málum getur haft mikil áhrif á hag þjóðarinnar. Fyrir þarsíðustu kosningar var helsta kosningamálið veiting ríkisborgararéttar til handa tengdadóttur Jónínu Bjartmars. Vissulega er full ástæða til þess að jafnræðis sé gætt hvað varðar veitingu á ríkisborgararétti, en það var slæmt að þetta væri gert að aðalefni kosningabaráttunnar. Að því leiti brást Kastljós og hefði mátt vera dæmt. Ég sá hins vegar ekki hvernig sonurinn og tengdadóttirin gætu fengið Kastljósið dæmt fyrir umfjöllunina. Dómurinn sem Kastljós hefði átt að fá var fyrir það að draga athyglina frá ,,stóru málunum" svo sem mögulegar veilur í efnahagsuppbyggingunni. Þannig brást Kastljós þjóðinni. Málið var vissulega skúbb, en bara á mjög óheppilegum tíma. 

Kosningarnar núna fjölluðu um styrki til stjórnmálaflokkana. Sagt hefur verið að sú umræða hafi verið í boði Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Rökræðan og fjölmiðlaumfjöllunin hefði átt að vera um þá miklu erfiðleika sem þjóðin stendur frammi fyrir henni, og lausnir á þeim vanda. Þessir styrkir voru upp á einhverja tugi milljóna, en upphæðirnar sem verið er að fara með varðandi aðgerðir í efnahagsmálum nema hundruðum ef ekki þúsundum milljarða. Um leið og kosningarnar voru búnar féll umfjöllunin um styrkina niður, og nokkrir stjórnmálamenn sögðu þegar málið snérist um styrki til þeirra persónulega, ,, Ætla nú ekki að fjalla um þetta mál, svona rétt fyrir kosningar". Ef málið var svona brýnt og mikilvægt, af hverju hætti þá umræðan strax eftir kosningar?  Umræðan sem hefði átt að taka, t.d. um efnahagsmálum, er rétt að fara í gang núna. Umfjöllunarleysið skaðar þjóðfélagið til lengri tíma. Fyrir það hefði nú átt að dæma fjölmiðlamennina. Auðvitað verður það ekki gert.

Þjófnaðurinn á síðustu tveimur kosningum hefur hér með verið upplýstur, en við brotinu eru engin ákvæði í lögum.


mbl.is Kastljós sýknað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rökstuðningur

Um allan heim er verið að lækka stýrivexti. Ekki úr 15,5% í 13%  eins og hér á Íslandi, heldur úr 1% í 0,5% eða 0%. Stýrivextirnir eru nýttir til þess að annað hvort að daga úr þenslu ef hún er of mikil, eða til þess að auka umsvifin í efnahagslífinu ef um samdrátt er að ræða. Hér hefur verið leitast við að nýta stýrivextina til þess að verja efnahagskerfið fyrir verðbólgu á undanförnum. Mikil verðbólga er einmitt eitt af táknum fyrir of mikilli þenslu. Þegar verðbólguþróun er skoðuð má öllum vera ljóst að í kerfinu er engin undirliggjandi verðbólga til staðar. Þvert á móti, er sterk einkenni samdráttar og verðhjöðnunar.

Þeir sem ekki vilja heyra,sjá eða skilja, segja okkur að það sé 11,9% verðbólga. Rökstuðningurinn er að þegar þeir líta 12 mánuði aftur í tímann, og skoða verðhækkanir á því tímabili fái þeir út verbólgu þess tímabils, og yfirfæri það á verðbólguna nú. Efnahagstjórn er oft líkt við skútusiglingu. Það væri nú ekki mjög gáfuleg siglingarstjórn, ef skipstjórinn útskýrði fyrir okkur stjórnina hjá honum nú þegar komið er inn í skerjagarðinn, að hann ætlaði að láta ákvarðanir um aðgerðir nú mótast af því þegar skútan var á hafi úti.

Á sama tíma og vísitala neysluverðs hefur hækkað 11,9% hefur gengi íslensku krónunnar lækkað um tugi prósenta. Enn og ein vísbending um mikla verðhjöðnun innanlands.

Peningastefnunefnd Seðlabankans á að gefa upp afstöðu hvers og eins í nefndinni og ítarlegan rökstuðning. Fjölmiðlar þyrftu að koma að borðinu og fjalla um þessar ákvarðanir á gagnrýninn hátt. Stefna peningamálanefndar stuðlar að enn meiri samdrætti í íslensku efnahagslífi, afleiðingar þeirra stefnu auka líkurnar á öðru efnahagshruni á Íslandi, sem margir vara nú við. Ábyrgðin er því mikil, og því þarf rökstuðningur að liggja fyrir.

Það að greinargerð nefndarinnar komi fram að samkvæmt könnun Capacent Gallup telja heimilin í landinu (væntanlega almenningur) að verðbólgan sé nú 23% og hún muni lækka í 17%. Á sama tíma telja forsvarsmenn fyrirtækja að verðbólgan verði 0%. Þessi mikli mismunur er áfellisdómur yfir peningastefnunefnd, Seðlabanka og fjölmiðlum.

Í kosningunum var ekki verið að ræða um efnahagsvandann, og nú eftir kosningar er heldur ekki verið að gera það. Á meðan eykst ólgan í þjóðfélaginu, hún er í boði stjórnvalda og fjölmiðla.


mbl.is Tveir vildu lækka vexti meira
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef einhvern tíma var þörf þá nú.

Við setningu Alþingis er hefð fyrir því að fara í guðþjónustu í Dómkirkjunni fyrir setningu þingsins. Mikill meirihluti þjóðarinnar er kristinn, svo og mikill meirihluti þingmanna. Við byggjum okkar þjóðfélag á kristnum gildum og því fyllilega eðlilegt að viðhalda þessari hefð. Ég geri engar athugasemdir við það hvort Þór Saari eða einhverjir aðrir þingmenn kjósi ekki að taka þátt í guðþjónustunni, þeir mega þá fara á Hótel Borg eða á einhverja aðra staði. Mætt síðan til þingsetningar þegar hún hefst.   Væntanlega vill mikill meirihluti þingmanna viðhalda þessari hefð. Annars var það merkileg tilviljun að Siðmennt var einmitt að funda á Borginni á sama tíma. Eða var það ekki tilviljun. Ef áður var þörf á að byggja á kristnum gildum, þá er enn ríkari þörf til þess í náinni framtíð.


mbl.is Óþarfi að blanda Guði inn í þinghaldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að hitta naglann á höfuðið

Minnkun á innflutningi á matvöru, þýðir ekki endilega að framleiðsla innanlands hafi aukist samsvarandi. Bæði er að erlendum farandverkamönnum hefur fækkað umtalsvert, einhverjir Íslendingar hafa flutt úr landi, fólk bakar og notar minna fullbúna vöru, þá hefur neysla sennilega minnkað eitthvað.

Í gær var viðtal við atvinnulausan mann, sem ekki gat lengur borgað af lánunum. Hann spurði hvað hann teldi að stjórnvöld gætu gert. Lengt í lánum, fryst lán eða afskrifa lán að hluta eða fullu. Svarið var, stjórnvöld þaurfa að koma hjólum atvinnulífsins í gang á ný og þá fæ ég vinnu. Þar hitti hann naglann á höfuðið. Aðgerðir fyrir heimilin þurfa að sjálfsögðu að koma til.

Göran Person gaf okkur ekki þau ráð að ástæðulausu, að fara ekki út í kosningar við þessar aðstæður. Það seinkar uppbyggingarferlinu og við missum af mikilvægum tíma og tækifærum í ferlinu. Það liggur fyrir að skera þarf í ríkiskerfinu, og þar mun störfum fækka. Þess vegna er mikilvægast að örva lítil og meðalstór fyrirtæki. Aðildarumsókn í ESB, þó að af yrði,  er langtímaverkefni sem leysir ekki vanda fyrirtækjanna nú.

Hlutverk ríkisins er að skapa aðstæður. Sterkasta útspilið er lækkun stýrivaxta. Á meðan aðrar þjóðir eru að lækka sýna stýrivexti nálægt núllinu, eru með raunstýrivexti í sögulegu hámarki. Rökin sem sett eru fyrir almenning er að ef vísitölur séu skoðaðar 12 mánuði aftur í tímann,sé hægt að reikna út að verðbólga sé um 11,9%. Reyndar láta þeir fylgja með að ársverðbólga skoðuð til þriggja mánaða þróunar sé aðeins 1,4 %, það sem ekki er látið fylgja með að gengi hefur lækkað umtalsvert á þessum tíma. Það er engin undirliggjandi verðbólga í kerfinu, heldur verðhjöðnun. Af hverju stjórnvöld reyna að blekkja almenning í þessu máli er óskiljanlegt. Af hverju Seðlabanki og peningamálanefnd halda stýrivöxtum í 15,5% er hreint óskiljanlegt athæfi. Þegar búið er lækka vexti þarf að gagna í næstu skref.

 


mbl.is Hafa ekki þurft að fjölga fólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur guðfaðir nýju stjórnarinnar?

Mjög áhugaverð frétt var á Vísi.is í kvöld. Spurningin hvort rétt er með farið. Ef svo er þá spurinignin hvort Ólafur Ragnar Grímsson sé guðfaðir þessarar ríkisstjórnar?

 Fréttin er svona:

olafur og sigmundur

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, beitti Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins, þrýstingi að styðja minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Lektor við Háskólann í Reykjavík segir enga kvöð hafa verið á formanni Framsóknarflokksins að sitja og standa eins og forsetinn vildi.

Framsóknarflokkurinn ákvað á þingflokksfundi í lok janúar að styðja minnihlutastjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að þegar farið var að ræða stjórnarmyndunina hafi Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, byrjað að þrýsta mjög á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann, að flokkurinn myndi styðja við stjórnina. Á þeim tíma hafði Framsóknarflokkurinn ekki séð aðgerðaráætlun 80 daga stjórnarinnar né séð hvernig hún myndi uppfylla skilyrðin fyrir minnihlutavernd. Ólafur Ragnar mun hafa lagt ríka áherslu á að málin yrðu kláruð sem fyrst.

Sigmundur Davíð segir að það hafi verið mikill þrýstingur að stjórnin yrði mynduð og það hratt. Hann vill hinsvegar ekki staðfesta hvort Ólafur hafi beitt hann þrýstingi.

Guðni Th. Jóhannesson lektor við Háskólann í Reykjavík telur að öllu jöfnu eigi forseti að halda sig til hlés í svona málum en vegna óvenjulegra aðstæðna megi teljast skiljanlegt að forsetinn hafi beitt sér í málinu.

 


Af góðu fólki

Þeir sem hafa kynnst Geir Haarde bera honum vel söguna. Ingibjörg naut ekki síður virðingar. Ríkisstjórnin  virtist standa vel  fyrstu vikurnar eftir bankahrunið.  Síðan kom að því ferli sem ráðamenn hefðu átt að koma og ræða við þjóðina og virkja hana til þess að takast á við þann vanda sem við var að etja. Þá heyrðist minna og minna í ráðherrunum og óánægja almennings jókst. Glundroði. Jarðvegurinn fyrir búsáhaldabyltinguna varð til. Hluti óánægjunnar var e.t.v. að fólk fannst að bæði Geir Haarde og Ingibjörg S. Gísladóttir hafi ekki skynjað hvaða upplifun fólks var af þessu hruni. Bæði gerðu þau minna úr þeim erfiðleikum sem almenningur stóð frammi fyrir. Lækkun launa, atvinnumissi, hækkun skulda, lækkun húsnæðisverðs, hækkun afborgana á lánum. Bæði töluðu þau  um 20-30% minnkun kaupmáttar. Er þetta hugsanlega hluti af því sem Páll Skúlason talaði um að atvinnupólíkusar eiga til að fjarlægjast grasrótina.

Bæði Jóhanna Sigurðardóttir  og Steingrímur Sigfússon njóta mikillar virðingar hjá þjóðinni. Þau eru ekki frekar en Ingibjörg og Geir að virkja þjóðina með sér, ekki enn sem komið er. Grunnstýrivextir eru í hæðum sem enginn skilur, öllum til mikils skaða og mikil óvissa ríkir mörg mál. Á sama tíma vex spennan í þjóðfélaginu. Svör við aðgerðum fyrir þá sem eru með erfiða skuldastöðu, eru mjög loðin. Á sama tíma vex óttinn við næsta bankahrun. Viðbrögðin við ábendingum og tillögum benda til þess að fjarlægðin frá grasrótinni sé svipuð hjá Jóhönnu og Steingrími og hjá þeim Geir og Ingibjörgu.

Davíð Oddsson sagði einhverju sinni að það mesta hættan fyrir þá sem leituðust við að hlusta of vel á grasrótina,  væri að fá orm upp í eyrað.

Ef ekki verður hlustað á  þá 319.442 Íslendinga sem bíða eftir lausnum. Þær unnar í samráði og samvinnu, með virkri hlustun,  verður aðalvandamálið ekki ormur í eyra, heldur ný búsáhaldabylting.

 


mbl.is Stjórnarmyndunarviðræðum haldið áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útibú í Hollandi

Fór á afar áhugaverða ráðstefnu á laugardaginn. Breskur fyrirlesari Peter Briscoe búsettur í Hollandi sagði okkur lauslega frá stöðu mála í Hollandi. Nokkrir bankar hafa farið á hausinn og framganga bankanna mótast af græðgi og  óábyrgni. Verðlag á fasteignum hefur lækkað, atvinnuleysi aukist og  fyrirsjáanlegt er að fjöldi fólks mun missa allt sitt. Allt þetta er þekkjum við úr okkar hagkerfi. Hér fyrir kosningar mátti skilja að þetta væri sértilbúið íslenskt vandamál, en svo er ekki. Þeir markaðsbrestir sem hér voru til staðar,eru líka til staðar hjá nágrannaþjóðum okkar. Við greiningu á efnahagshruninu hér, verður hægt að leita einnig til greiningu annarra þjóða á þeirra hruni. Vandamálin í Hollandi stafar ekki af íslensku útibúi í Hollandi.

Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Þorsteinsson

Höfundur

Sigurður Þorsteinsson
Sigurður Þorsteinsson
Maí 2009
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Þor
  • Þor
  • Birna Einarsdóttir
  • Birna Einarsdóttir
  • kjöt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband