Neytendur eiga að borga

Afar athyglisverð grein um Orkuveitu Reykjavíkur, eftir Gunnar Birgisson fyrrum bæjarstjóra í Kópavogi birtist í Morgunblaðinu á laugardaginn s.l. 
 
 
Neytendur eiga að borga
 
 
 
gunnar_birgisson.jpg
 
Gunnar I. Birgisson

Athygli hefur vakið uppsögn Hjörleifs Kvaran, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, en hann hafði verið í starfi sl. þrjú ár sem forstjóri. Hann er talinn hafa staðið sig mjög vel að flestra yfirsýn. Þess vegna kom uppsögnin mörgum á óvart. Það er nokkuð ljóst að Jón Gnarr borgarstjóri og Dagur B. Eggertsson leiðtogi Samfylkingarinnar vildu Hjörleif burt til að koma að »sínum manni« að og hindra hagræðingarferli Hjörleifs sem var í miklum gangi. Hinn nýi stjórnarformaður OR af grínaralistanum, Haraldur Flosi Tryggvason, tjáði Hjörleifi einfaldlega að hann nyti ekki trausts stjórnarinnar. En alveg án þess þó að hafa talað við meirihluta stjórnarmanna. Því vélaði hann Hjörleif raunverulega til þess að segja af sér á fölskum forsendum. Er þetta í stíl við annað hjá þessu fólki. Helmingur stjórnarinnar sat síðan hjá við afgreiðslu málsins þegar hann stóð frammi fyrir gerðum hlut. Enginn hafði döngun í sér eða kjark til að greiða atkvæði á móti þessum ofbeldisfulla gjörningi.

Það virðist vera orðin tíska margra stjórnmálamanna að taka ekki afstöðu og hafa ekki helst skoðun á neinu máli, heldur gera líkt og rjúpan, að fela sig í lynginu þar til fálkinn er floginn hjá og þykjast þá Lilju kveðið hafa. Stjórnarformaðurinn réð síðan vin sinn í forstjórastarfið til sex mánaða. Ekki getur sú ráðstöfun talist til gagnsæjustu stjórnarathafna sem nú eru sagðar í tísku. Fjölmiðlum fannst lítið til málsins koma og maður spyr sig hvar þetta margumtalaða aðhald þeirra sé statt. Eða eru þeir bara kannski hlutdrægir? Ekki hafa þeir heldur kíkt á sjálftöku launa nýja forstjórans í Háskóla Íslands, sem Ríkisendurskoðun hefur gert alvarlegar athugasemdir við og einnig gæti viðskiptaferill stjórnarformannsins talist athyglisverður með gjaldþrot Viðskiptablaðsins á bakinu og fleiri afrek.

Glórulausar fjárfestingar og arðgreiðslur eru vandamál OR. Þegar OR var stofnuð með samruna Hitaveitu, Rafmagnsveitu og Vatnsveitu Reykjavíkur, þá var mynduð skynsamleg og skilvirkari rekstrareining, sem hafði alla möguleika til að lækka orkuverð til neytenda. En því var ekki að heilsa. Orkuveitan hefur greitt Borgarsjóði arðgreiðslur á hverju ári, alveg sama hvernig hefur árað í rekstri fyrirtækisins. Á undanförnum 11 árum hafa ekki runnið minna en þrjátíu og þrír milljarðar á þennan hátt frá heimilunum í Reykjavík og þeim nágrannasveitarfélögum sem Orkuveitan þjónar. Allt þetta fé hefur runnið til þess að borga umframeyðslu borgarstjórnarinnar í Reykjavík og flottræfilshátt meðan aðrar sveitarstjórnir þurftu að spara. Og ekki er þetta allt komið. Rafmagnsveita Reykjavíkur átti hlut í Landsvirkjun sem Landsvirkjun leysti síðan til sín fyrir þremur árum upp á nálægt þrjátíu milljarða. Þetta fé rann ekki til eigandans heldur hrifsaði borgarsjóður þetta fé allt til sín og orkukaupendur fengu ekkert. Hefði þessum ránsfeng verið skilað þá skuldaði Orkuveitan ekki 244 milljarða heldur 184 milljarða og orkuverðið væri til muna lægra. Hvað myndi þetta þýða fyrir orkuverðshækkun núna? Skyldi Haraldur Flosi geta svarað því? Skyldi hann líka geta svarað því af hverju Seltjarnarnes getur selt heita vatnið 17% ódýrara en Orkuveitan þrátt fyrir venjulega stærðarhagkvæmni? Og Seltjarnarnes hefur ekki áformað neinar hækkanir svo vitað sé. Þegar sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu gengu í það að leysa holræsamál sín á tíunda áratug síðustu aldar lá fyrir, að kostnaður Reykjavíkurborgar myndi hlaupa að minnsta kosti á annan tug milljarða króna. Þá fann R-listinn það snjallræði að færa fráveituna inn í OR til að fegra reikninginn hjá borgarsjóði. Það var einnig ljóst að holræsagjaldið, sem Ingibjörg Sólrún og R-listinn lagði á borgarbúa myndi ekki standa undir nauðsynlegum framkvæmdum. Í stjórnarformannstíð Alfreðs Þorsteinssonar, sem sat þar í skjóli og fríu fæði hjá Ingibjörgu Sólrúnu, keyrði um þverbak. Fjárfest var í öllu mögulegu og ómögulegu svo sem Línu-Net, Raflínu og fleiri slíkum ævintýrum sem aldrei virkuðu tæknilega, risarækjueldi fyrir austan fjall sem heldur ekki gekk upp, frístundabyggð í Grafningi og síðan voru keyptar allar vatns- og jarðvarmaveitur á Vestur- og Suðurlandi sem hægt var að kaupa og miklar framkvæmdir settar í gang í kjölfarið. Holræsakerfi sveitarfélaganna á Vesturlandi voru sett undir OR og nú eru holræsaframkvæmdir í gangi á Akranesi, Borgarnesi og í uppsveitum Borgarfjarðar fyrir um fimm milljarða króna. Víst er að holræsagjöldin okkar duga langt í frá fyrir þeirri útrás. Þá hefur verið hlaðið mannskap inn í OR Til þess að það gengi upp þurfti að byggja nýjar skrauthöfuðstöðvar fyrir milljarða og var hvergi til sparað hjá Alfreð við það tækifæri og allur kostnaður rauk stjórnlaust úr böndunum. Starfsmannafjöldi OR hefur lengst af verið svipaður og hjá Landsvirkjun, Landsneti, HS-Orku, HS-Veitum, RARIK og Orkusölunni til samans og meðallaunin þar um hálf milljón á mánuði! Það er því eðlilegt að Haraldur Flosi komi auga á það að hækka þarf gjaldskrárnar til þess að standa undir þessum umsvifum, sem eru komin býsna langt frá upphafinu, sem var að skaffa borgurunum ódýrt vatn og rafmagn

Fjárfesting í orkuframleiðslu til stóriðju er besta fjárfesting OR Það hefur verið látið að því liggja hjá núverandi valdhöfum í O.R. að vandamál fyrirtækisins sé vegna fjárfestinga í orkuframleiðslu til stóriðju. Þarna er staðreyndum snúið á hvolf eins og svo mörgu öðru hjá þessu fólki. Heildarskuldir OR eru 244 milljarðar og þar af eru áttatíu milljarðar vegna framkvæmda fyrir orkufrekan iðnað. Á bak við þessa fjárfestingu er raforkusala til Norðuráls upp á hundrað og sextíu milljarða á 25 árum í erlendri mynt. Skuldin mun greiðast upp á næstu fimmtán árum og eftir það mun Hellisheiðarvirkjun mala gull fyrir eigendur sína. Ég held að það megi fullyrða að Norðurál sé þannig einn traustasti viðskiptavinur OR. Samkvæmt yfirlýsingum Jóns Gnarr borgarstjóra og Haraldar Flosa stjórnarformanns OR er ætlunin að fjárfesta ekki frekar í rafmagnsframleiðslu til orkufreks iðnaðar, heldur sé meiningin að fara að vinna bara fyrir »fólkið«. Og hvernig ætla þessir ágætu menn að gera það? Jú þeir ætla að láta fólkið greiða skuldirnar sem eftir sitja, það er að segja hundrað sextíu og fjóra milljarða, sem eru mest tilkomnar vegna óarðbærra fjárfestinga og sukks, sem lýst var hér að framan.

Íbúar nágrannasveitarfélaganna eru látnir greiða óreiðuskuldir OR með orkureikningum sínum Nú liggur fyrir að Haraldur Flosi ætlar að hækka gjaldskrá OR um tugi prósenta til að rétta fjárhag fyrirtækisins við eftir óráðsíu R-listans og Alfreðs Þorsteinssonar. Þetta þýðir með öðrum orðum að íbúar nágrannasveitarfélaganna, Kópavogsbúar, Garðbæingar, Hafnfirðingar, Seltirningar og Mosfellingar þurfa að greiða stóran hlut óreiðunnar, sem var notkun þeirra á vatni og rafmagni óviðkomandi. Þetta er auðvitað gert í skjóli einokunaraðstöðu OR, því hvert geta menn flúið þrátt fyrir ESB-tilskipanirnar allar, sem hafa kostað milljarða að hlaupa eftir? Þetta er ekki hægt að líða nema í bananalýðveldum, og því er rétt að kæra þessar hækkanir til viðkomandi yfirvalda ef þau eru þá til. Það er enginn á móti óviðráðanlegum hækkunum á vatnsöflun og rafmagni sem til koma vegna ytri aðstæðna, framkvæmda og viðhalds. En það gegnir öðru máli þegar meginuppistaðan er vegna pólitískrar ævintýramennsku ábyrgðarlausra stjórnmálamanna. Nauðsynlegt er fyrir neytendur að fá sundurliðun skulda OR og sjá hvernig þær byggjast upp. Hætt er við að framkvæmdir við grunnverkefnin séu þar í minnihluta en ýmisleg ævintýri beri þar hærra. Er þess skemmst að minnast á hverjar brautir OR var komin þegar hún var farin að fjárfesta fyrir hagsmuni ýmissa lykilstarfsmanna með mestu fjárglæframönnum landsins og þótt víðar væri leitað. Geysir Green Energy ævintýrið ætti að verða lengi minnum haft og sýnir glöggt hvernig spilling og sérgæska getur náð að þróast hjá opinberum fyrirtækjum þó hægt fari í byrjun. Stærstu vatnsöflunarframkvæmd OR lauk á Nesjavöllum fyrir einum tuttugu árum. Sú framkvæmd er væntanlega uppgreidd og getur því ekki verið tilefni hækkananna í dag. Ennfremur eru flestar framkvæmdir við kaldavatnsöflun langt að baki og væntanlega uppgreiddar líka. Það ber því allt að sama brunni, að það er óráðsía og ævintýri, mikið í tíð R-listans, sem er grunnurinn að fjármálavandanum í dag en ekki grunnhlutverk OR, sem er einfaldlega að útvega eigendum sínum sem ódýrasta orku og vatn. Það er ömurlegt til þess að vita, að opinbert fyrirtæki í almannaeigu geti bara afhent neytendunum reikninginn fyrir sukk pólitískra ævintýramanna án frekari skýringa í stað þess að hagræða í rekstri og mannahaldi og gera kröfur til sjálfs sín áður en það ræðst á þá sem minna mega sín.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

greiðsluverkfall er einfaldasta lausnin til að mótamæla þessu.

Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 1.9.2010 kl. 22:25

2 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Arnar, greiðsluverkfall er ein leiðin. Lengi vel leit ég á Gunnar Birgisson sem boxara. Þessi grein er hins vegar hreint snilldarverk. Yfirveguð gagnrýni sem ég hef á tilfinningunni að leitast verði að þegja í hel. Átti ekki von á að Baugsmiðlarnir í eigu Jóns Ásgeirs tæki málið upp. Morgunblaðið viðrist lítið ætla að aðhafast, og RÚV er handónýtt.

Sennilega þarf að skipa rannsóknarnefnd um Orkuveituna. 

Sigurður Þorsteinsson, 1.9.2010 kl. 23:54

3 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Sigurður, þremur vikum fyrir kosningar í vor, þann 6. maí, var í Borgarráði, samþykkt tillaga þáverandi oddvita Vg í Borgarstjórn, um stofnun rannsóknarnefndar á stjórnsýslu borgarinnar frá árinu 2000 og fram að hruni.  Rannsóknarnefnd þessi á meðal annars að skoða samskipti kjörinna fulltrúa í Borgarstjórn, starfsmanna borgarinnar og fyrirtækja hennar, við verktakafyrirtæki, auðmenn og fleiri aðila, sem gætu hafa beitt ofangreinda aðila óæskilegum þrýstingi við ákvörðunartöku.   Í slíkri rannsókn yrði ruglið í OR frá stofnun og fram að hruni örugglega áberandi.

 Ég hef hins vegar heimildir fyrir því að Samfylkingin þvælist fyrir því að þessi samþykkt verði virkjuð.

Kristinn Karl Brynjarsson, 2.9.2010 kl. 17:53

4 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sagt er að Samfylkingin hafi farið fram á að nokkrir þættir yrðu utan starfssviðs rannsóknarnefndar, s.s. málefni Knattspyrnuakademíunnar. Einnig að Samfylkingin fengi að velja nefndina. Þegar umræðan hófst um rannsóknarnefnd um Icesavesamninginn pökkuðu VG öllum rannsóknarnefndarhugmyndum niður í pappakassa og hentu kassanum upp á háaloft.

Sigurður Þorsteinsson, 2.9.2010 kl. 19:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Þorsteinsson

Höfundur

Sigurður Þorsteinsson
Sigurður Þorsteinsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Þor
  • Þor
  • Birna Einarsdóttir
  • Birna Einarsdóttir
  • kjöt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband