Í hvaða flokki er hann?

Greinar Ragnars Hall um Icesave hafa vakið verðskuldaða athygli. Hér á blogginu, en minna í fjölmiðlaumfjöllun er verið að gera að því skóna að gagnrýni Ragnars Hall sé ekki nógu góð af því að hann sé hugsanlega Sjálfstæðismaður. Hún veit ég ekki hvar Ragnar Hall er í pólitík  og er reyndar alveg slétt sama. Það var gengið fram hjá Ragnari Hall við skipan í stöðu hæstaréttardómara, og þá var sú ráðstöfun gagnrýnd af mönnum úr öllum flokkum. Ragnar Hall átti að ráða vegna faglegra sjónarmiða, en ekki vegna pólitískra skoðana. Rök Ragnars Hall eru svo sterk að fram hjá þeim verður ekki skautað.

Flestum er það nú ljóst, að samninganefndin sem fór út vegna Icesave gerði alvarleg mistök. Að öllum líkindum voru mistökin gerð við skipun hennar og það er þá á ábyrgð Steingríms Sigfússonar. Sterklega hefur komið fram að ef þessum Icesavesamningi verður hafnað verði Steingrímur Sigfússon að segja af sér. Þvílík fyrra. Steingrímur eins og aðrir ráðamenn gera mistök, og þau verða þá fyrst alvarleg ef keyra á þau í gegnum Alþingi þannig að þau skaði þjóðina, börn okkar og barnabörn. Ef Steingrímur kemur fram og segir að nokkrir ágallar hafi komið fram við skoðun á þessum samningi og hann verði því tekinn upp, þá munu allir vera sáttir við það.

Það er kominn tími til þess að við lyftum okkur upp fyrir gamaldags flokkapólitík. Við þurfum að nýta reynslu og þekkingu hvar í flokki sem menn eru.


Frá hjónunum að austan

Í dag birtist lítil en áhugaverð grein í Morgunblaðinu sem vert er að vekja athygli á.

 

 

Rökstudd gagnrýni kallar á rökstudd svör

Forsendur:

Ísland ábyrgist innstæðueiganda í íslenskum banka að hann fái innstæðu sína greidda að fullu allt að 20.887 evrum.

Þrotabú íslensks banka greiðir innstæðueiganda 20.887 evrur.

Spurning:

Ber Ísland ábyrgð á tjóni innstæðueigandans vegna innstæðu umfram 20.887 evrur?

Svar okkar:

Nei.

Sé þessi framsetning rétt hefur íslenska samninganefndin um Icesave-málið gengist undir ábyrgð, umfram skyldu, gagnvart breskum og hollenskum stjórnvöldum sem nemur gríðarlegum fjárhæðum. Um það hefur verið samið að íslenski tryggingasjóðurinn sitji uppi með kostnað, sem hann ber ekki ábyrgð á. Lögmennirnir Hörður Felix Harðarson hrl. og Ragnar H. Hall hrl sýndu fram á þetta með dæmum í grein sem birtist í Morgunblaðinu 22. júlí sl. og Ragnar skýrði málið enn frekar í grein í Morgunblaðinu 27. júlí. Eiríkur Tómasson, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands, hefur haldið því sama fram í Morgunblaðinu.

Þegar fram koma vel rökstuddar ábendingar um að íslensk stjórnvöld séu að auka fjárhagsbyrðar þjóðarinnar umfram nauðsyn þurfa stjórnvöld að skýra mál sitt. Þetta mál er svo alvarlegt að skýringarnar þurfa að vera efnislegar, rökstuddar og án útúrsnúninga. Svörin mega ekki felast í þeirri gamalkunnu aðferð að varpa rýrð á þá menn sem sett hafa fram ábendingarnar.

Höfundar eru hjón í Fjarðabyggð.

Helga Jónsdóttir Helgi H. Jónsson


Ræður meirihlutinn?

Ef Alþingismenn færu eftir sannfæringu sinni værum við þá að sækja um aðild að Evrópusambandið? Það er mjög ólíklegt. Einn flokkur Samfylkingin tók ákvörðun á þingi hjá sér eftir tvísýnar kosningar að stefna að því að sækja um aðild. Síðan þá hef ég ekki hitt Samfylkingarmann sem hefur gefið út að hann styddi ekki aðildarumsókn. Það ber ekki vott um mikið lýðræðisstarf innan flokksins. Meginþorri Vinstri grænna eru andsnúnir umsókn, en studdu aðildarumsókn nú, þar sem það var hluti af stjórnarsamstarfinu. Framsóknarflokkurinn styður aðildarumsókn með svo ströngum skilyrðum að ólíklegt er að niðurstaða fáist sem sé ásættanleg. Sjálfstæðismenn lögðust gegn aðildarumsókn, en innan flokksins eru skiptar skoðanir þó að mikill minnihluti vilji sækja um aðild. Líklegt verður því að telja að við núverandi aðstæður vilji ekki sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Össur segir í viðtalinu að ein ástæða fyrir því að Íslendingar hafi ákveðið að sækja um aðild að Evrópusambandinu sé sú að nú standi yfir endurskoðun á utanríkisstefnu og öryggismálum landsins. Síðan hvenær eru þetta ástæðan fyrir því að sækja um aðild? Hafi umræður um slíkt farið fram á þingi nú við umfjöllun um málið á þinginu, hefur það algjörlega farið fram hjá mér. Össuri hefur bara dottið þetta í hug á staðnum. Furðulegt að fjölmiðlar skuli ekki taka málið upp.

Það er auðvitað ekki við Samfylkinguna að sakast að ná þessu máli fram. Aðild að ESB er þannig mál að það er í hæsta lagi óeðlilegt að út í slíka umsókn sé farið án þess að fyrir liggi að meirihluti þjóðarinnar standi á bak við slíka umsókn. Ef aðildin verður felld þá hefur mikilvægum tíma okkar og orku og fjármunum verið eytt, sem við hefðum betur hefði verið eytt í annað.

Ábyrgðin er á herðum Vinstri grænna. Við sækjum ekki um aðild að ESB gegn sannfæringu okkar. Við ráðumst ekki á annað land eða styðjum innrás án þess að fyrir því sé tryggur meirihluti. Mál af þessari stærð semjum við ekki um við stjórnarmyndun. Ekki undir neinum kringumstæðum. VG mun skaðast vegna þessa hvort sem aðild verði samþykkt eða hafnað. Skaðinn ber þjóðin.  

 


mbl.is „Getum lifað án Evrópu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Voðalega spennandi!!!

Ég mætti í vinnuna í dag, fullur eftirvæntingar. Minnist úrslitaleiksins í handbolta á Ólympíuleikunum. Skildum við hafa það. Átti erfitt með að koma mér að verki. Þurfti ítrekað að standa upp frá skrifborðinu og ná mér í vatn eða kaffi. Í hádeginu voru allir á iði. Hvernig haldið þið að það fari. Einn úr innsta hring Samfylkingarinnar sagði: ,, Við vinnum 14-2" og ljómaði.

,,Asni" sagði vinur hans og flokksfélagi. ,,Ef einhver er á móti, er dæmið fellt"

,, Allt í lagi, þá 14-0, fulltrúar Breta og Hollendinga fara á klósettið meðan kosið er"

Upp úr þrjú var farið í ríkið og keypt dálítið af bjór, og nú settust menn niður og ræddu málin. Þetta var meira spennandi en handboltinn, miklu meira spennandi. Maður velti því fyrir sér hvort það væri bein útsending í Vetrargarðinum. Kannski þúsundir Íslendinga. Loks kom niðurstaðan. Hugsið ykkur allir utanríkisráðherrarnir samþykktu samhljóma að vísa umsókninni til framkvæmdastjórnar ESB. Við stukkum á fætur og föðmuðumst. Hoppuðum um og grétum af gleði. Ísland vann, Ísland vann. Guðmundur kommi tók þátt í fagnaðarlátunum og var manna kátastur.

,, Varst þú ekki á móti inngöngu í ESB" spurði ég

,, Jú, jú, sagði hann, en þetta var bara svo spennandi. Maður hrífst alveg með. Ísland vann."

Svo hlustuðum við á Össur Skarphéðinsson  og hann sagði.

„Ég er auðvitað ákaflega glaður og hamingjusamur með það að utanríkisráðherrarnir skuli hafa afgreitt þetta í dag. Það er diplómatískur sigur fyrir okkur Íslendinga. Það var ekki sjálfgefið,“

 Nei þetta var svo sannarlega ekki sjálfgefið. Strákarnir eru enn niður í vinnu að fagna. Þegar ég kom heim kom hún Sara mín á móti mér, hoppaði af gleði, og gelti. Það var eins og að hún vissi að við værum á leiðinni í ESB. WizardWizardWizard


mbl.is Össur: „Diplómatískur sigur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fokdýrar ESB viðræður

Samkvæmt skoðanakönnunum vildi meirihluti þjóðarinnar láta reina á ESB aðild, en jafnframt taldi meirihlutinn að við myndum ekki ná þeirri niðurstöðu sem við teldum ásættanlega. Ef þjóðin yrði spurð:

 Viltu sækja um aðild að ESB, til þess að láta reyna á hvað í boði er? Er ég ekki viss um að um slíkt næðist meirihluti, og enn má telja líklegt að allnokkrir yrðu fráhverfir umsókn ef þeir fengju að vita að kostnaðinn við þessa umsókn yrði yfir 1 milljarður.

Ef við þurfum að samþykkja Icesave til þess að fá að láta reyna á hvar stæði til boða í ESB þá gæti það kostað okkur 100-250 milljarða eins og fram kemur í grein Ragnars Hall í dag, er ég sannfærður um að mikill meirihluti þjóðarinnar myndi fella slíkar viðræður.

 

 

 


mbl.is Breski tryggingasjóðurinn leystur undan ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Týndur forseti?

Forseti Íslands á að vera eins og aðrir þjóðhöfðingjar sá sem sameinar þjóðina, þegar vel gengur en ekki síður þegar illa gengur. Það er engin spurning að þetta gerðu fyrri forsetar, auðvitað misvel. Við gegnum í gegnum tíma þar sem allt virtist á uppleið, og þá fór forsetinn mikinn, en nú þegar hlutverk hans ætti að vera hvað mikilvægast er hann hvergi. Týndur.

ólafur Ragnar grímsson

Ástæða þessa má eflaust rekja til þess að hann spilaði ekki rétt úr þeirri stöðu sem hann var í. Við kjör Ólafs galt hann þess að hafa verið harður rökræðupólitíkus þá Alþingi. Þá snérist málin oft meira um klæki en málefni.  Einn harðasti andstæðingur hans á þingi var Davíð Oddson og þegar Ólafur var kjörinn forseti ákvað Davíð að taka Ólaf ekki í sátt. Þetta gerði Ólafi erfitt fyrir og þetta var óásættanlegt ástand fyrir þjóðina. Sannarlega hafði Ólafur ýmislegt fram að færa, tengsl og þekkingu sem Ólafur leitaðist við að nýta í sínu nýja starfi. Kappræðustjórnmálamaðurinn segir ýmislegt sem hefur ekkert með sannleikann og heiðarleika að gera og það stakk hann í nýju  embætti. Þar á ofan mátti greina núning milli Vigdísar Finnbogadóttur og Ólafs Ragnars sem var mjög óheppilegt vegna þess að Vigdís hafði verið einstaklega vinsæl sem forseti. Ólafur hefði sennilega átt að nýta Vigdísi betur og sýna henni meiri virðingu en hann virtist gera. Núningur Ólafs og Davíðs hélt áfram, en í stað þess að ná lendingu í því ákvað Ólafur að taka stöðu með nýrri valdastétt á Íslandi, útrásarvíkingunum svokölluðu. Afgreiðsla hans á fjölmiðlafrumvarpinu var afdrifarík ákvörðun, ákvörðun sem tryggði að um sátt milli Ólafs og Davíðs yrði ekki að ræða. Í ljósi sögunnar verður þessi ákvörðun Ólafs sennilega metin hans versta ákvörðun. Ólafur var kominn í nýtt lið, sem ögraði stjórnvöldum og sveik þjóðina. Alveg örugglega vissi Ólafur Ragnar ekki hvert þessi nýja valdastétt á Íslandi var að fara, en hann var kominn um borð og með því bar hann ábyrgð.

ólafur og dorrit

Báðar konur Ólafs Ragnars hafa komið vel út, við hlið Ólafs í embætti. Fyrst Guðrún Katrín Þorbergsdóttir sem hafði almenna virðingu, hvort sem var af stuðningsmönnum Ólafs eða andstæðingum. Síðan Dorrit Moussaiff síðari kona Ólafs, sem hafur verið umdeildari þar sem hún hefur spilað hlutverkið á gjörólíkan og óvenjulegan hátt. Oft fær fólk ekki réttmæta dóma fyrr en eftir að þeir hafa farið af vettvangi, en af öllum líkindum má búast við að Dorrit fái afar góða dóma hjá meginþorra þjóðarinnar.

Við bankahrunið og þau átök sem í framhaldinu voru kom Ólafur veikur út. Hann fékk persónulega harða gagnrýni og þegar þjóðin þurfti á sterkum forseta að halda til þess að stappa trú í þjóðina, var forsetinn laskaður. Þau skref sem hann hefur tekið síðan hafa heldur ekki verið skynsamleg. Síðustu mánuði hefur hann nánast dregið sig í hlé.

Meirihluti þjóðarinnar telur ekki að við nánum ásættanlegum samningi við ESB, þá þarf að skoða leið B. Þá gæti Ólafur Ragnar fengið nýtt hlutverk. Styrkleiki Ólafs er að hann getur myndað tengsl. Þá getur Ólafur Ragnar náð stöðu sinni aftur. Núverandi staða Ólafs Ragnars er algjörlega óásættanleg bæði fyrir hann og þjóðina. Við erum nánast án forseta. Aðstæður gætu breyts á næstu mánuðum og þá getur Ólafur Ragnar náð vopnum sínum að ný.  


Gömul rök og ný

Þorvaldur Gylfason prófessor og einn umsækjanda að stöðu Seðlabankastjóra skrifar  grein í Fréttablaðið í dag. Þar sem mér hefur fundist vanta meiri rökræðu um aðildarumsókn okkar í ESB, átti ég von á áhugaverðri grein.
 þorvaldur Gylfason
Rökin með og á móti inngöngu Íslands í Evrópusambandið hafa verið kembd í þaula. Þau eru ýmist af hagrænum eða pólitískum toga. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að Íslendingar hafi hag af inngöngu í ESB umfram þær hagsbætur, sem fylgdu inngöngunni á Evrópska efnahagssvæðið 1994.

Hagfræði og pólitík

Hagurinn af inngöngu í ESB felst í aðgangi að ódýrari og betri mat og drykk, lægri vöxtum, einkum ef upptaka evrunnar fylgir með í kaupunum svo sem stendur til, minni verðbólgu, meiri samkeppni, minna okri, meiri valddreifingu, minni sjálftöku, virkara aðhaldi og eftirliti. Jafnvel þótt þessar hagsbætur væru ekki fyrirsjáanlegar, væri ég fyrir mína parta hlynntur inngöngu í ESB af pólitískum ástæðum. Það stafar af því, að ESB er allsherjarbandalag allra helztu vinaþjóða Íslands í Evrópu nema Norðmanna og Svisslendinga, og í þeim hópi eigum við heima, þótt einhver okkar kunni að öllu samanlögðu að draga hagsbæturnar í efa. Við eigum ekki að spyrja að því einu, hvaða hag við getum haft af ESB. Við eigum einnig að hugsa til þess, sem við kunnum að hafa þar fram að færa.

Rökin gegn aðild eru misjöfn að gæðum. Okrarar kæra sig ekki um aðild, því að þeir þurfa þá að láta af iðju sinni. Spilltir stjórnmálamenn munu einnig missa spón úr aski sínum, þar eð þeir munu eiga erfiðara uppdráttar í kröfuhörðum evrópskum félagsskap, og kallar ESB þó ekki allt ömmu sína. Bankarán um bjartan dag verða einnig torveldari undir vökulum augum bankayfirvalda og fjármálaeftirlits ESB. Václav Havel, forseti Tékklands, orðaði þessa hugsun skýrt um árið: Engum nema glæpamönnum getur stafað ógn af inngöngu í ESB. Rök þjóðernissinna gegn fullveldisafsali hafa nú holan hljóm, svo illa sem stjórnvöldum hélzt á óskoruðu fullveldi Íslands. Stjórnmálamenn, embættismenn, bankamenn og stjórnendur stórfyrirtækja keyrðu landið í kaf og bökuðu erlendum viðskiptavinum bankanna svo stórfellt fjárhagstjón, að þeim kann sumum að þykja eðlilegt, að Íslendingar deili framvegis fullveldi sínu með þeim og öðrum, svo að þeim stafi ekki frekari hætta af íslenzkum fjárglæframönnum. Það er skiljanlegt viðhorf af erlendum sjónarhóli. Þjóðverjar kusu að binda hendur sínar innan ESB af tillitssemi við granna sína í ljósi sögunnar. Þetta var einnig hugsun sumra heiðvirðra Færeyinga í kreppunni þar um og eftir 1990: þeim fannst rétt að bjóðast til að segja sig úr ríkjasambandinu við Danmörku af virðingu fyrir Dönum, en af því varð þó ekki.

Ríkidæmisröksemdin

Norðmenn líta margir svo á, að þeir þurfi ekki á aðild að ESB að halda, þar eð þeim séu allir vegir færir á eigin spýtur í krafti olíuauðsins, sem þeir hafa safnað í digran sjóð. Það kann að vera rétt, en þessi rök vitna ekki um mikið örlæti gagnvart fátækari þjóðum innan ESB. Sumir Íslendingar tóku í sama streng og bentu á, að lífeyrissjóðirnir íslenzku námu 100.000 Bandaríkjadölum á mann 2007 borið saman við 85.000 Bandaríkjadali á mann í olíusjóði Norðmanna. Það var þá. Gengi krónunnar hefur lækkað um röskan helming frá 2007, svo að lífeyrissjóðirnir eru nú mælt í dollurum á mann kannski hálfdrættingar á við olíusjóð Norðmanna, sem þeir kalla nú lífeyrissjóð. Ríkidæmisrökin gegn inngöngu Íslands í ESB eiga ekki lengur við. Þau voru falsrök. Ríkidæmið 2007 var tálsýn, sem var reist á rammfölsku gengi krónunnar og hlutabréfa og einnig á uppsprengdu verði fasteigna.

Ég játa að þessi grein Þorvaldar Gylfasonar slær mig, en ég er ekki viss um að hún hafi fært skoðanir mínar neitt í áttina að því að styðja aðildarumsókn Íslands að ESB. Viðbrögðin eru miklu frekar undrun og dálítil depurð, því ég hef alltaf hlustað og lesið það sem Þorvaldur Gylfason hefur haft fram að færa með virðingu.


Mikilvægur áfangi

Endurreisn bankakerfisins hefur tekið mun lengri tíma en vonast var til. Íslandsbanki og Kaupþing eru einkavæddir að nýju, þó fram komi að það gerist á einhverjum tíma. Mikilvægt að það ferli sé skýrt út fyrir almenningi sem í dag á þessa banka. Eru einhver skilyrði fyrir þessum kaupum? Hverjar eru forsendurnar og hvert er söluverðið? Helsta vandamálið við einkavæðingu er að þá þarf regluverk og eftirlitstofnanir að miðast við starfsemi og umfang. Það var ekki til staðar í haust þegar bankarnir hrundu. Er það til staðar nú? Það er mikil einföldun að halda því fram að það sé nóg að útlendingar komi að bönkunum og þá sé engin hætta.

Miðað við þær upplýsingar sem fram hafa komið virðast skilanefndir Kaupþings og Íslandsbanka hafa skilað góðum árangri, en niðurstaðan hjá Landsbanka hefur vakið upp margar spurningar. Hvers vegna kemur Landsbankinn svona ílla út? Voru eignir hans svona verðlitlar? Var fjárfestingastefna bankans svona slök, eða var starf skilanefndar svona slakt? Einn starfsmaður Landsbankans í Lúxemborg hélt því fram að mjög illa hafi verið staðið að málum þar.

Til þess að skapa traust í þjóðfélaginu þarf allt að vera upp á borðinu.


mbl.is Í faðm erlendra bankarisa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir eiga Ísland?

Allt sem fram hefur komið um Icesave segir að við megum ekki samþykkja þennan samning. Samt er eitthvað sem segir manni að stjórnvöld ætli að samþykkja samninginn af flokkspólitískum ástæðum. Eftir búsáhaldabyltinguna urðu flokkarnir svo óskaplega lýðræðislegir. Valdið til fólksins. Nú örfáum mánuðum síðar virðast pólitíkusarnir hafa  gleymt almenningi og nú eru það flokkarnir sem ráða. Þetta er ekki spurning um smámál, þetta er spurning um framtíð barnanna okkar. Samþykkt þessa samnings setur þjóðina í fátækragildru til komandi ára.

Seðlabankinn gerir ráð fyrir ráð fyrir 6-7% árlegri aukningu í þjóðarframleiðslu á árunum 2012-2018. Það verður að teljast afar bjartsýnar forsendur. Á þessum tíma sama tíma reikna bankinn með að jákvæðum vöruskiptajöfnuði allan tímann, sem í ljósi sögunnar er óhugsandi.

Mistök hafa verið gerð við samningagerðina og það er ódýrara fyrir þjóðina að viðurkenna það, en að borga herlegheitin.  Alþingi gaf ekki sendinefndinni umboð til þess að semja fyrir sig. Sendinefndinni var fullkunnugt um að ef hún ætlaði að semja um ríkisábyrgð þá þyrfti samningurinn að vera þannig að Alþingi myndi samþykkja hann. Það var Bretum og Hollendingum einnig ljóst. Miðað við þá vankanta sem komið hafa í ljós, þegar farið er yfir þennan samning, ber að hafna samningnum.


mbl.is „Menn sömdu af sér“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB - Rökræða eða kappræða

Eftir efnahagshrunið kom upp mjög sterkur vilji meðal þjóðarinnar að taka upp ný vinnubrögð í þjóðmálunum. Aukið lýðræði og rökræðu í stað flokkslegrar kappræðu. Þannig komu minnihlutastjórn VG og Samfylkingar með hugmyndir um þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem aðeins  þurfti til ósk 15% þjóðarinnar. Eitthvað virðist þessi lýðræðisást hafa minnkað því þjóðin var ekki talin nægjanlega vel að sér til þess að vera treyst til þess að taka afstöðu til þess hvort við ættum að sækja um aðild að ESB. Icesave málið er næsta mál og það er afar vond tilfinning sem segir mér , að þeir flokkar sem lögðu svona mikið upp úr þjóðaratkvæðagreiðslu munu ekki taka í mál að málið verði lögð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Hins vegar gæti ég alveg trúað því að ef fram kæmi krafa um að banna kattarhald þá fengjum við hugsanlega að greiða atkvæði. Getur verið að stjórnmálamennirnir okkar hafi gleymt baráttumálunum í búsáhaldabyltingunni?

Vinnubrögðin sem taka átti upp var rökræðu í stað kappræðu. Afar líðið hefur farið fyrir rökræðu um ESB, umræðan er öll á tilfinningasviðinu. Við eigum að ganga í ESB til þess að taka þátt í samstarfi þjóðanna, vegna þess  að ESB sé framtíðin og vegna þess að íslenska krónan sé veikur gjaldmiðill. Þrátt fyrir það viðurkenna að ekki séu neinar líkur til þess að evran verði tekin upp hér næstu 10-20 árin. Rökræðan snýst um að taka kosti þess og galla að gagna ESB og á grundvelli þeirra upplýsinga er tökum við  ákvörðun um hvort innganga sé okkur æskileg eða ekki.

Mín tilfinning er sú að ESB umræðan sé fremur að fara í átt til kappræðu fremur en til rökræðu. Sem dæmi um þá þá lágkúru sem farið er niður á er blogg Kjartans Jónssonar um frétt Mbl. um að Kristilegir demókratar í Bayern hafi lýst andstöðu við aðild Íslands í ESB. Kjartan heldur því fram að CSU sé sambærilegur á stærð og Borgarahreyfingin hérlendis, og ber síðan á sérlega sóðalegan hátt CSU saman við breskan fasistaflokk. Þeir sem til þekkja vita að CSU hefur lengstum haft um 60% fylgi í Bayern eða Bæjaralandi. Vonandi verður svona öfgafullur málflutningur ekki það sem koma skal á Íslandi. Set link hér á lágkúru Kjartans Jónssonar.

http://kjarri.blog.is/blog/kjarri/entry/916357/


mbl.is Andsnúnir inngöngu Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Þorsteinsson

Höfundur

Sigurður Þorsteinsson
Sigurður Þorsteinsson
Júlí 2009
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Þor
  • Þor
  • Birna Einarsdóttir
  • Birna Einarsdóttir
  • kjöt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband