Góð grein um bankamálin.

Ragnhildur Sverrisdóttir skrifar mjög góða grein um stöðuna í bankamálunum á Norden

 

Skuldunum tókst að bjarga

Þrír stærstu íslensku bankarnir, Landsbanki, Glitnir og Kaupþing, hrundu til grunna haustið 2008. Tveir þeirra, Glitnir og Kaupþing, eru nú komnir undir stjórn erlendra kröfuhafa og heita Íslandsbanki og Arion banki, en Landsbankinn er á forræði ríkisins. Gríðarlega örum vexti og útrás íslenska bankakerfisins, sem var orðið 10 sinnum stærra en landsframleiðslan, lauk nánast á einni nóttu og eftir stóðu rústir einar.

14/04 2010

Á Íslandi leiddi alþjóðleg lausafjárkreppa ekki eingöngu til tímabundinna erfiðleika bankanna, heldur varð beinlínis kerfishrun. Bankakerfið lagðist á hliðina og þótt stóru bankarnir þrír hafi verið þar fyrirferðarmestir, þá fóru ýmis smærri fjármálafyrirtæki jafn illa.

Eftirskjálftar hrunsins lögðu svo fjölmörg fyrirtæki að velli og mörg heimili hafa sokkið eða eru að sökkva í skuldasúpu.

Endurreisn bankanna þriggja lauk formlega í desember sl., 14 mánuðum eftir að þeir hrundu og löngu eftir að endurreisninni átti að vera lokið samkvæmt fyrstu áætlunum. Í desember var loks lokið við að ganga frá uppgjöri vegna þeirra eigna, sem færðar voru úr gömlu bönkunum í þá nýju.

Íslendingar segja kaldranalega brandara um hvernig eignir þeirra hurfu í hruninu, en blessunarlega hafi tekist að bjarga öllum skuldum almennings yfir í nýju bankana.

Deilt um rústirnar

Vissulega var gert ráð fyrir að bankarnir þyrftu að afskrifa allt að þriðjungi krafna sinna, en þær afskriftir skila sér ekki til almennra skuldara, sem margir hverjir höfðu tekið lán í erlendum gjaldeyri og horfðu fram á tvöföldun þeirra lána nánast á einni nóttu þegar gengi krónunnar kolféll.

Bankarnir standa hins vegar frammi fyrir að þurfa að afskrifa milljarða á milljarða ofan hjá ofurskuldsettum fyrirtækjum, sem engin leið er að innheimta. Þeir hafa stofnað sérstök félög um rekstur á fyrirtækjum og fasteignum, sem þeir hafa leyst til sín frá gjaldþrota viðskiptavinum.

Miklar deilur hafa spunnist um hvernig þeim eignum er ráðstafað frá bönkunum, til dæmis urðu hatrammar deilur þegar í ljós kom að Arion banki hafði ákveðið að gefa eigendum stærsta verslunarfyrirtækis landsins kost á að eignast hlut í því, þótt þeir hefðu misst það frá sér í einu stærsta gjaldþroti Íslandssögunnar.

Sama var uppi á teningnum þegar bankinn gaf fyrri eigendum annars stærsta skipafélagsins kost á að halda yfirráðum yfir félaginu.

Ríkisstjórnin hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að bregðast seint og illa við skuldavanda almennings. Viðkvæðið hefur löngum verið, að mun færri hafi orðið gjaldþrota en ráð var fyrir gert fyrst eftir hrun og virðist þá lítið tillit tekið til þeirrar staðreyndar að fjöldi skuldara fékk afborganir sínar frystar um tíma og aðrir nýttu sér takmarkaða heimild til að leysa út lífeyrissparnað, til að standa straum af afborgunum.

Þarna var hins vegar ekki um varanlegar lausnir á vandanum að ræða, heldur gálgafrest og nú í mars stóðu margir frammi fyrir að frystingu lána var aflétt og afborganir skullu á af fullum þunga.

Tíu dögum fyrir páska greip viðskiptanefnd þingsins í taumana og ákvað að krefja bankana um skýr svör við því, hvaða svigrúm þeir hafi til að afskrifa skuldir heimila og lækka höfuðstól lána.

Þingmenn hafa áður reynt að afla þeirra upplýsinga, en bankarnir neitað að svara og borið við bankaleynd. Gildir þar einu hvort bankar hafi verið á forræði kröfuhafa eða ríkisins. Núna er þverpólitísk samstaða um að knýja bankana til svara og bíða margir spenntir eftir þeim svörum.

Eru útlenskir bankar betri?

Líklega verða seint fullar sættir um hvernig ráðstafa beri þeim eigum, sem bankarnir hafa nú forræði yfir. Í tilfelli Arion banka hefur verið bent á, að erlendir kröfuhafar, sem nú hafa tekið við stjórn bankans, ráði mestu um hvernig tekið sé á málum.

Þeir líti eingöngu á mál út frá viðskiptalegum forsendum, en taki ekki tillit til almenningsálits og stjórnmála á Íslandi. Þess vegna sé þeim alveg sama þótt menn hafi kallað yfir sig miklar óvinsældir vegna fyrri viðskiptahátta, þeir líti aðeins á framtíðaráætlanir þeirra og séu reiðubúnir að taka þá aftur í viðskipti.

Þær raddir heyrast hins vegar líka oft, að það hljóti að vera til bóta að erlendir kröfuhafar, oft stórir bankar, fái yfirráð yfir nýju bönkunum. Þeir hafi fjárhagslegan styrk til að veita afskriftir og muni þannig reynast skuldurum þægilegri en íslenskir bankar.

„Hvers vegna ættu erlendir kröfuhafar að vilja eignast allar þessar íbúðir á Íslandi?“ spyrja skuldsettir íbúðareigendur og eygja von um betri tíð og meira umburðarlyndi lánardrottna.

Þar ræður óskhyggjan, því ekkert bendir til að erlendir eigendur banka ætli sér að staldra lengi við. Núna sitja þeir uppi með þessar eignir á Íslandi, en þeir munu að líkindum reyna að innheimta það sem þeir geta upp í gríðarlegar kröfur sínar og hæpið að þar ráði einhver samfélagsleg sjónarmið.

Það sem ekki má

Íslendingar hafa áttað sig á því, þótt seint sé, að bankarnir höfðu allt of frjálsar hendur. Reglur og lög náðu ekki að fylgja eftir ört vaxandi starfsemi um allan heim.

Nú vilja menn auðvitað tryggja að sagan endurtaki sig ekki. Í byrjun þessa árs lagði viðskiptaráðherrann fram lagafrumvarp, þar sem hert er verulega á öllum reglum um fjármálastofnanir. Frumvarpið var samið í kjölfar ráðgjafar frá fyrrverandi forstjóra finnska fjármálaeftirlitsins.

Samkvæmt lagafrumvarpinu verður ábyrgð innri endurskoðunar nú meiri en áður, settar verða reglur um eðlilega viðskiptahætti, lán til lykilmanna bankanna verða takmörkuð, kaupaukar og starfslokasamningar sömuleiðis, áhættuskuldbindingar verða takmarkaðar og reglur um eiginfjárgrunn hertar.

Þá verður bönkum bannað að veita lán með veðum í eigin skuldabréfum, en slíkt bann var svo sannarlega ekki í gildi fyrir hrun. Ótal mörg dæmi eru um há lán til slíkra kaupa, þar sem engar ábyrgðir voru aðrar en bréfin sjálf. Þegar bankarnir hrundu urðu slík veð að sjálfsögðu ekki pappírsins virði.

Enn er langt í að íslenskt efnahagslíf rísi eins og Fönix úr öskunni. Í efnahagslegu tilliti er Ísland ekki eyland. Ríkisvaldið þarf á lánum að halda, frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og frá nágrönnum sínum á Norðurlöndum, en þau lán hafa látið á sér standa, þar sem þessir lánveitendur vilja að Ísland leysi deilur sínar við Bretland og Holland vegna Icesave-reikninga Landsbankans í löndunum.

Atvinnulífið er nánast botnfrosið, fyrirtækin kljást við gríðarlega skuldsetningu, lausafjárskort og háa vexti og atvinnuleysi hefur náð áður óþekktum hæðum.

Íslenska krónan hefur styrkst lítillega undanfarið, en þá styrkingu verður að meta í ljósi stífra gjaldeyrishafta. Þau sömu höft fæla erlenda fjárfesta frá því að flytja fé til landsins, enda sjá þeir þá fram á að geta ekki náð því fé sínu til baka, a.m.k. á meðan höftin eru enn í gildi.

Endurreisn íslenska bankakerfisins mun vonandi haldast í hendur við endurreisn alþjóðlegs fjármálalífs. Kreppan á Íslandi er hins vegar svo miklu dýpri en víðast hvar annars staðar og viðbúið að endurreisnin verði sársaukafull.

Bankar hafa aldrei verið góðgerðastofnanir og lítil merki sjást um að nýju, íslensku bankarnir ætli að láta samfélagsleg sjónarmið ráða umfram viðskiptaleg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Þorsteinsson

Höfundur

Sigurður Þorsteinsson
Sigurður Þorsteinsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Þor
  • Þor
  • Birna Einarsdóttir
  • Birna Einarsdóttir
  • kjöt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband