Á að borga hudruði milljarða að óþörfu?

 Ragnar Hall hæstaréttarlögmaður og fyrrum borgardómari skrifaði stórmerkilega grein fréttablaðið föstudaginn 10 júlí. Þótt greining hafi vakið feiknarathygli ætla ég að halda henni til haga hér. 
ragnar hall
Ragnar Hall
 Er þetta rétt reiknað?
Um þessar mundir er hart deilt um það hér á landi hvort ríkissjóður eigi að taka á sig mörg hundruð milljarða króna skuldbindingu vegna Icesave innlánsreikninga Landsbankans í Bretl

Um þessar mundir er hart deilt um það hér á landi hvort ríkissjóður eigi að taka á sig mörg hundruð milljarða króna skuldbindingu vegna Icesave innlánsreikninga Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Þótt hart sé deilt og margir láti málefnið til sín taka þykir mér á það skorta að gerð sé viðhlítandi grein fyrir því hvernig hin ætlaða skuldbinding hefur verið reiknuð út. Ég tel mig hafa ástæðu til að ætla að rangir útreikningar hafi leitt til þess að skuldbinding Íslands hafi verið ofmetin í samningsgerðinni.

Í eftirfarandi samantekt leiði ég hjá mér þann ágreining sem mest hefur verið fjallað um opinberlega, þ.e. hvort íslenska ríkið sé yfirleitt skuldbundið til að leggja Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta til fjármagn svo að sjóðurinn rísi undir skuldbindingu sinni gagnvart hinum erlendu innstæðueigendum. Þess í stað gef ég mér það, rétt eins og samninganefnd Íslands hefur gert, að Íslandi sé skylt að leggja þessa fjármuni til. Spurningin sem þá stendur eftir er þessi:

Hvernig gerum við dæmið upp?

Þar sem Landsbanki Íslands hf. er gjaldþrota verða menn að nálgast viðfangsefnið eftir þeim reglum sem gilda um gjaldþrotaskipti - engu breytir í því sambandi þótt bankinn sé í umsjá skilanefndar og úrskurður hafi ekki verið kveðinn upp um gjaldþrotaskipti. Kröfur Icesave-eigenda eru forgangskröfur við gjaldþrotaskipti, hliðsettar launakröfum eftir þá breytingu sem gerð var á réttindaröð krafna með svokölluðum neyðarlögum í október síðastliðnum. Þessir kröfuhafar eiga líka rétt á því að hinn íslenski tryggingasjóður greiði þeim út 20.887 evrur fyrir hvern slíkan reikning sem svo há innstæða var á eða hærri (að sjálfsögðu lægri upphæð ef innstæðan var lægri). Ef tryggingasjóðurinn gerir þetta, hvert er þá næsta skref?

Um leið og tryggingasjóðurinn greiðir út, þá eignast hann kröfu innstæðueigandans að því marki sem greitt er. Svo dæmi sé tekið um kröfu að fjárhæð 100.000 evrur, og íslenski tryggingasjóðurinn greiddi 20.887 evrur af henni, þá ætti tryggingasjóðurinn 20,887% af þessari kröfu en innstæðueigandinn ætti sjálfur 79,113% eftir.

Gefum okkur það síðan að breski tryggingasjóðurinn eigi að tryggja innstæðueigendum allt að 50.000 evrur af hverjum reikningi samkvæmt þarlendum reglum. Það þýðir að breski sjóðurinn greiðir 29.113 evrur til innstæðueigandans, sem þá á eftir 50% af upphaflegri kröfu sinni. Breska ríkið hefur síðan leyst til sín þennan hluta kröfunnar líka, umfram skyldu að mér virðist, en það skiptir ekki máli hér.

Túlkun á gjaldþrotareglum

Þá er ég kominn að kjarna málsins: Hvað á hver þessara aðila að fá stóran hluta upp í kröfu sína úr þrotabúi Landsbankans? Eigendur innstæðunnar, sem upphaflega var 100.000 evrur, eru nú orðnir þrír. Eru þeir jafnsettir við úthlutunina, eða hefur einhver þeirra forgang á annan? Ef þeir eru allir hliðsettir, þá mundi upphaflegi innstæðueigandinn fá úthlutun upp í eftirstöðvarnar jafnvel þótt úthlutunin væri undir 50% upp í forgangskröfur - það getur augljóslega ekki gengið. Tryggingasjóðirnir eiga að tryggja innstæðueigendum ákveðna lágmarksgreiðslu. Af því leiðir, að þegar þeir hafa gert það hlýtur úthlutunin fyrst að ganga til uppgjörs á þeim hluta sem tryggingasjóðirnir hafa leyst til sín. Á sama hátt hlýtur úthlutunin fyrst að ganga upp í kröfur íslenska tryggingasjóðsins áður sá breski fær nokkuð, því að skuldbinding breska sjóðsins kemur á eftir íslenska sjóðnum. Sá breski greiðir aðeins mismunarfjárhæð á 20.887 evrum og 50.000 evrum og þarf ekkert að greiða ef fjárhæðin er lægri en 20.887 evrur.

Röng útlegging

Í frumvarpinu sem nú liggur fyrir Alþingi um heimild til handa fjármálaráðherra, f.h. ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán tryggingasjóðsins til að gera upp Icesave-skuldbindingarnar segir m.a.:

"Íslenski tryggingarsjóðurinn fær framselda kröfu breska tryggingarsjóðsins og hollenska Seðlabankans í bú Landsbankans. Erlendu aðilarnir munu síðan sjálfir gera kröfu í búið vegna þess sem umfram er og þeir hafa fjármagnað. Í samningnum er sérstakt ákvæði sem áréttar að sjóðirnir muni njóta jafnræðis þegar kemur að úthlutun úr búi Landsbankans, þ.e. fá upp í kröfur sínar í jöfnum hlutföllum, en það er í samræmi við þá túlkun á gjaldþrotalögunum sem almennt hefur verið uppi (leturbreyt. RHH)."

Ég tel að þessi útlegging sé alröng og að hún fái með engu móti staðist. Ég hef unnið talsvert við lagaframkvæmd í sambandi við gjaldþrotaskipti um alllangan tíma. Ég kannast ekki við þá lagatúlkun sem hér er haldið fram að hafi almennt tíðkast. Þvert á móti held ég því fram að lagaframkvæmdin hafi verið þveröfug. Um það nægir að vísa til þeirra ótalmörgu tilvika þar sem Ábyrgðasjóður launa hefur leyst til sín hluta launakrafna í þrotabú.

Ég hef ekki aðstöðu til að reikna það út, hve miklu munar á þessum útreikningsaðferðum, en mig grunar að það geti skipt hundruðum milljarða króna. Það er trúlega skýringin á því að í samninginn skuli hafa verið tekið sérstakt ákvæði um þetta - hér hafa einfaldlega verið gerð skelfileg mistök okkar megin - og þá er ekki erfitt að skilja að Hollendingar segi að ekki komi til greina að taka samningaviðræður upp að nýju!

Höfundur er

hæstaréttarlögmaður


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elle_

Nei, það á ekkert að borga það.  Takk fyrir þetta, Sigurður.

Elle_, 11.7.2009 kl. 23:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Þorsteinsson

Höfundur

Sigurður Þorsteinsson
Sigurður Þorsteinsson
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Þor
  • Þor
  • Birna Einarsdóttir
  • Birna Einarsdóttir
  • kjöt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband