Týndur forseti?

Forseti Íslands á að vera eins og aðrir þjóðhöfðingjar sá sem sameinar þjóðina, þegar vel gengur en ekki síður þegar illa gengur. Það er engin spurning að þetta gerðu fyrri forsetar, auðvitað misvel. Við gegnum í gegnum tíma þar sem allt virtist á uppleið, og þá fór forsetinn mikinn, en nú þegar hlutverk hans ætti að vera hvað mikilvægast er hann hvergi. Týndur.

ólafur Ragnar grímsson

Ástæða þessa má eflaust rekja til þess að hann spilaði ekki rétt úr þeirri stöðu sem hann var í. Við kjör Ólafs galt hann þess að hafa verið harður rökræðupólitíkus þá Alþingi. Þá snérist málin oft meira um klæki en málefni.  Einn harðasti andstæðingur hans á þingi var Davíð Oddson og þegar Ólafur var kjörinn forseti ákvað Davíð að taka Ólaf ekki í sátt. Þetta gerði Ólafi erfitt fyrir og þetta var óásættanlegt ástand fyrir þjóðina. Sannarlega hafði Ólafur ýmislegt fram að færa, tengsl og þekkingu sem Ólafur leitaðist við að nýta í sínu nýja starfi. Kappræðustjórnmálamaðurinn segir ýmislegt sem hefur ekkert með sannleikann og heiðarleika að gera og það stakk hann í nýju  embætti. Þar á ofan mátti greina núning milli Vigdísar Finnbogadóttur og Ólafs Ragnars sem var mjög óheppilegt vegna þess að Vigdís hafði verið einstaklega vinsæl sem forseti. Ólafur hefði sennilega átt að nýta Vigdísi betur og sýna henni meiri virðingu en hann virtist gera. Núningur Ólafs og Davíðs hélt áfram, en í stað þess að ná lendingu í því ákvað Ólafur að taka stöðu með nýrri valdastétt á Íslandi, útrásarvíkingunum svokölluðu. Afgreiðsla hans á fjölmiðlafrumvarpinu var afdrifarík ákvörðun, ákvörðun sem tryggði að um sátt milli Ólafs og Davíðs yrði ekki að ræða. Í ljósi sögunnar verður þessi ákvörðun Ólafs sennilega metin hans versta ákvörðun. Ólafur var kominn í nýtt lið, sem ögraði stjórnvöldum og sveik þjóðina. Alveg örugglega vissi Ólafur Ragnar ekki hvert þessi nýja valdastétt á Íslandi var að fara, en hann var kominn um borð og með því bar hann ábyrgð.

ólafur og dorrit

Báðar konur Ólafs Ragnars hafa komið vel út, við hlið Ólafs í embætti. Fyrst Guðrún Katrín Þorbergsdóttir sem hafði almenna virðingu, hvort sem var af stuðningsmönnum Ólafs eða andstæðingum. Síðan Dorrit Moussaiff síðari kona Ólafs, sem hafur verið umdeildari þar sem hún hefur spilað hlutverkið á gjörólíkan og óvenjulegan hátt. Oft fær fólk ekki réttmæta dóma fyrr en eftir að þeir hafa farið af vettvangi, en af öllum líkindum má búast við að Dorrit fái afar góða dóma hjá meginþorra þjóðarinnar.

Við bankahrunið og þau átök sem í framhaldinu voru kom Ólafur veikur út. Hann fékk persónulega harða gagnrýni og þegar þjóðin þurfti á sterkum forseta að halda til þess að stappa trú í þjóðina, var forsetinn laskaður. Þau skref sem hann hefur tekið síðan hafa heldur ekki verið skynsamleg. Síðustu mánuði hefur hann nánast dregið sig í hlé.

Meirihluti þjóðarinnar telur ekki að við nánum ásættanlegum samningi við ESB, þá þarf að skoða leið B. Þá gæti Ólafur Ragnar fengið nýtt hlutverk. Styrkleiki Ólafs er að hann getur myndað tengsl. Þá getur Ólafur Ragnar náð stöðu sinni aftur. Núverandi staða Ólafs Ragnars er algjörlega óásættanleg bæði fyrir hann og þjóðina. Við erum nánast án forseta. Aðstæður gætu breyts á næstu mánuðum og þá getur Ólafur Ragnar náð vopnum sínum að ný.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hansína Hafsteinsdóttir

Athyglisverð grein! Það er sannarlega  stórfurðulegt að forsetinn, sem búin er að þjóta heimshornanna á milli til að styðja við íslenska útrás á meðan andstæðingar hans í pólitík stjórnuðuð landinu, skuli ekki gera neitt til að hjálpa sinni langþráðu vinstri stjórn að semja um framtíð og afkomu þjóðar sinnar!

Hansína Hafsteinsdóttir, 26.7.2009 kl. 11:52

2 identicon

Með hlutverki sínu sem dansandi strengjabrúða í Hrunadansi fjármálaútrásarinnar dæmdi hann sig úr leik sem trúverðugt sameiningartákn þjóðarinnar eftir hrun hennar.  „Batnandi manni er best að lifa“ segi ég og held í veika von um að ósýnileiki hans nú sé vottur um, að hann kunni sig og bið að það endist út kjörtímabilið.

Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 26.7.2009 kl. 11:58

3 Smámynd: Púkinn

"Forseti" sem gerði sig að athlægi með því að veita Baugi útflutningsverðlaun mun aldrei verða tekinn alvarlega.

Vonandi losnar þjóðin við hann sem fyrst.

Púkinn, 26.7.2009 kl. 15:48

4 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Svokallað sameiningartákn þjóðarinnar lagð á ráðin um fall ríkisstjórnar Geirs Hilmars og ýtti undir og hvatti til svikráða IGS og ÖS.

Þriðjungur þjóðarinnar kaus hann á sínum tíma og við sitjum uppi með hann vegna þeirrar hefðar að fella ekki sitjandi forseta.

Þegar forseti þjóðarinnar hefur gripið inn í stjórnmálin á svo áhrifamikinn hátt, sem í fjölmiðlalagamálinu og við að fella ríkjandi stjórn á þjóðin að krefjast þess að embættið verði aflagt við næstu breytingu stjórnarskrár.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 26.7.2009 kl. 15:52

5 Smámynd: Jónas Egilsson

Athyglisvert eru þau ummæli, að báðar konur forsetans koma vel út í samanburði við karlinn! Segir það ekki ansi margt? Spurning er hvort forsetaembættið sé í raun orðið gagnslaust í höndum núverandi forseta. Forsetinn var svo samofinn útrásinni (spillingunni) að hann getur engan veginn verið sá sáluhjálpari þjóðarinnar sem hann hefði þurft að vera. Í hvert sinn sem hann tjáði sig um stöðu mála, hvort sem var við innlenda eða erlenda miðla, gerði hann illt verra. Steininn tók úr þegar hann var orðinn aðalskotspæni Spaugstofumanna. Embættið var komið niður í svaðið.

Ólafs Ragnars verður ekki minnst í sögu Framsóknarflokksins, sérstaklega. Hans hlutverki í Alþýðubandalaginu verður á einhvern hátt gerð skil - það fer eftir því úr hvaða armi söguritarinn kemur. Forsetaembættið hefur beðið skaða af veru Ólafs Ragnars þar. Stóra spurningin er hvort það lifi hans tíð af?

Jónas Egilsson, 26.7.2009 kl. 16:54

6 Smámynd: Agla

Mér finnst færslan athyglisverð og athugasemdirnar ekki síður.

Ég er ekki viss um að það sé í verklýsingu forseta Íslands að hann eigi að "sameina þjóðina" eða vera "sálusorgari" hennar.

Ég hélt að  embættisskyldur forseta Íslands hlytu að vera skilgreindar í landslögum og mat á frammistöðu forseta okkar yrði því að tengjast þeirri skilgreiningu. Persónulegar skoðanir okkar á þeim einstakling sem þjóðin kaus í mesta virðingarembætti lýðveldisins koma því mati ekki við, né heldur álit okkar á makavali hans.

Það er eðlilegt að þjóð í kreppu láti sig dreyma um "sterkan" leiðtoga. Hitler  var á sínum tíma persónugerving þess draums í Þýskalandi. Við höfum hinsvegar  okkar kjörnu fulltrúa á Alþingi og okkar þingbundnu ríkisstjórn til að "redda málinu" svo mér er það algjör ráðgáta hvað Forseti Íslands gæti gert til að leysa þann háska sem yfirvöld okkar gátu ekki afstýrt.

Þið sem þekkið lögin betur en ég vitið betur.

Agla, 26.7.2009 kl. 18:10

7 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Ég er algjörlega ósammála síðustu færslu hjá Öglu. Fyrir hvað stendur þjóðhöfðinginn ef hann á ekki að vera sameigningartákn? Hvað á forseti lands að gera? Ég veit ekki betur en þegar alvarlegir hlutir eru í gangi hjá öðrum þjóðum (og við erum sannarlega að ganga í gegnum erfiða hluti) stíga þjóðhöfðinjar fram fyrir skjöldu og ávarpa þjóð sína og uppörva hana. Við eigum í stríði - efnahagsstríði. Hvað hafa ekki þjóðhöfðingjar gert annars staðar undir sambærilegum kringumstæðum þótt okkar aðstæður séu líklega án fordæma? Embættisskyldur forsetans eru ekki tíundaðar nákvæmlega í lögum um stjórnarráð Íslands. Þar segir hvergi að þjóðhöfðinginn skuli styðja við útflutninsgreinarnar, heimsækja leikskóla eða fara með áramótaávarp í sjónvarpinu. Það leiði hins vegar af eðli málsins að ÞJÓÐHÖFÐINGI á að vera höfðingi, leiðtogi, forystumaður þjóðarinnar. Leiðtogar leiða. Og í hvaða stöðu er þjóð forsetans? Hvað gerir forsetinn þá?

Ef "þjóðhöfðingi" stígur ekki fyrir skjöldu á þessum erfiðu tímum og ber kjark og þor í þjóðina má leggja embættið niður og sparnaðurinn má þá allt eins renna til Mæðrastyrksnefndar. Við höfum ekkert við forseta að gera sem hvorki sést né heyrist í á erfiðum tímum.

Þetta embætti hefur sett gríðarlega niður að undanförnu og mér finnst að geri ÓR ekkert á næstunni til að auka veg þess og virðingu og ekki síður sjálfs sín í leiðinni sé erfitt að réttlæta það að hafa það á fjárlögum áfram.

Guðmundur St Ragnarsson, 26.7.2009 kl. 18:35

8 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Agla þér finnst, og þú ert ekki viss um, og þú hélst. Hlutverk þjóðarleiðtoga er örugglega ekki skilgreint nema að ákveðnum hluta í lögum, og síðan er sjálfsagt einhver starfslýsing og hefðir til þess að fara eftir. Hins vegar er það sannarlega í huga mjög margra hlutverk að sameina og vera ,,sálusorgari". Víða eru stjórnmálamennirnir í stöðugum erjum og þá vill oft hagsmunir fólksins gleymast. Þjóðhöfðingjar koma þannig og minna okkur á og benda á það sem betur má fara og gera.

Það er mikill misskilningur hjá þér að Hitler hafi verið leiðtogi. Leiðtogi er sá skilgreindur sem notar lýðræðið til þess að virkja fólk. Hitler er skilgreindur sem foringi.

Jóhanna Sigurðardóttir verður þannig seint flokkuð sem mikill leiðtogi, en hún hefur marga góða kosti sem ber að virða.

Leiðtogahlutverk í þeirri stöðu sem þjóðin stendur frammi fyrir væri henni mjög mikilvægt, og líklegt til þess að við næðum sem bestu árangri.  

Sigurður Þorsteinsson, 26.7.2009 kl. 18:49

9 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Agla varðandi maka forseta, þá skiptir okkur val hans ekki við. Hins vegar hefur makinn hlutverk og við getum metið frammistöðu makans í því hlutverki og kemur það við.

Sigurður Þorsteinsson, 26.7.2009 kl. 18:51

10 Smámynd: Agla

Gaman að fá viðbrögð við svona lítt hugsaðri athugasemd.

Sigurður fyrirgefur mér vonandi að ég var bara að hugleiða færsluna upphátt og var þar að auki að reyna að sýna kurteisi sem óboðinn gestur á bloggi  með "finnst, hélt, ekki viss um" fyrirvaranum..

Kannski ætti að skilgreina Hitler sem leiðtoga? Hans flokkur vann jú kosningarnar í 1932 og tókst þar með að nota lýðræðislegar aðferðir til að virkja þjóðina til stuðnings NSDAP.  Er Jóhanna Sigurðardóttir ekki samkvæmt skilgreiningunni "leiðtogi". Tókst henni ekki að "virkja fólk" í lýðræðisríki í seinustu kosningum? Valdataka Hitlers kemur okkar vanda sem betur fer lítið við. Ég nefndi hann einfaldlega í sambandi við drauminn um "sterkan foringja/leiðtoga" sem stundum gýs upp þegar á móti blæs jafnvel í háþróuðum lýðveldum eins og okkar.

 Mér finnst túlkun þín á hlutverki þjóðarleiðtoga samkvæmt "hug mjög margra" mjög athyglisverð,  Þú nefnir sérstaklega " að sameina og vera "sálusorgari"" í viðbót við það verksvið sem skilgreint kunni að vera í lögum. Þá ert þú að tala, skilst mér, um hlutverk Forseta Islands en ekki þjóðhöfðingjns í Utopia? Er ekki biskupinn annars sálusorgari Íslensku þjóðarinnar?

Ég hélt að okkar stjórnarskrá setti Alþingi og Ríkisstjórninni leiðtogahlutverk í þinni skilgreiningu svo mér þætti fróðlegt að heyra hvernig þú telur að Forseti Íslands gæti leyst þá leiðtogaskyldu af hendi sem þér finnst hann skulda þjóðinni.

Kveðja

Agla, 26.7.2009 kl. 20:15

11 Smámynd: Agla

Skil ekki alveg athugasemd nr 9 en ég held hún sé í rauninni ekki kjarni málsins. Kv

Agla, 26.7.2009 kl. 20:24

12 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Auðvitað á Forsetinn að vera sameiningartákn þjóðarinnar og sálusorgari líka. Ég gleymi því aldrei þegar snjóflóðin féllu í Súðavík þá fór Vigdís Finnbogadóttir og Davíð Oddson á staðinn til að sýna stuðning og samúð. Sama gerist hjá öðrum þjóðum ef hamfarir verða þá er forsetinn eða þjóðhöfðinginn alltaf sýnilegur og til staðar. Íslenska þjóðin er svo sannarlega að ganga í gegnum miklar hörmungar núna og margir óttaslegnir og búinir eða eru að missa allt siit. Ólafur Ragnar Grímsson veldur ekki sínu hlutverki sem forseti Íslands.

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 26.7.2009 kl. 21:38

13 Smámynd: Agla

Sæll Guðmundur  og þakka þér fyrir að hafa svarað athugasemdinni sem ég sendi inn í fljótræði.

Þú meinar trúlega sameiningartákn.Ég held okkur dreymi sama drauminn:Einhver birtist sem gefur okkur" kjark og þol".  Einhver kemur sem er höfðingi, leiðtogi,forustumaður þjóðarinnar kemur og leysir allan vanda. Í okkar lýðræði er það bara ekki  hlutverk forsetans . Hann er bundinn af stjórarskránni og getur ekki leyst Icesave,atvinnuleysið, skuldir heimilanna, gengi krónunnar eða neitt annað af þeim vandamálum sem brenna á okkur. Hann  myndi áreiðanlega mæta í Lassa eða á Tunglinu ef einhvert íslenskt fyrirtæki þyrfti á hans mætingu að halda og það myndi koma í fréttunum en ég efa að fjölmiðlar okkar telji það fréttnæmt þó hann mæti á ungmennafélagssamkomu eða heimsæki einhvern vinnustað úti á landi þó kannski sé þar sem endurreisnarsprotarnir gætu stungið upp kollinum.

Að sumu leyti held ég að okkar fyrrverandi forseti hafi frjálsari hendur pólitískt séð um að tala í okkur kjark og ég efa það ekki að fjölmiðlar myndu setja hana í sviðsljósið ef hún gæfi þeim sjensinn.

Agla, 26.7.2009 kl. 22:35

14 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Agla. Mér finnst þú bara ekki skilja að hlutverk forseta Íslands er mun víðtækara en eins og það er skilgreint í lögum. Þetta reyndi ég að útskýra í fyrri færslu minni. Ef hlutverk þjóðhöfðingja okkar Íslendinga færi eingöngu eftir lögum myndi hann t.d. ekki flytja áramótaávarp (!) eða heimsækja leikskóla, enda hvílir engin slík lagaskylda á honum. Hins vegar hafa mótast í gegnum tíðina ákveðnar hefðir og venjur forsetaembættisins. Ólafur Ragnar hefur sjálfur reynt að útvíkka hlutverk embættisins t.d. með því að synja staðfestingar fjölmiðlafrumvarpsins og þar með telur hann sjálfur að hann fari með talsvert mikið vald í valdstjórninni. Ef hlutverk forsetans er eingöngu að hengja orður á menn og aðstoða Útflutningsráð Íslands auk kotteilboða fyrir fyrirmenn má leggja embættið strax niður. Þrengingar okkar Íslendinga í dag eru án fordæma. Enginn forseti frá stofnun þess embættis hefur verið þjóðhöfðingi á slíkum tímum. Þótt Ólafur Ragnar hafi mært útrásina þarf hann ekki að leggjast í kör. Hann mun kannski ekki leysa vandann Agla. En þegar Englendingar voru í stríði við Hitler sem er þér hugleikinn talaði hann til þjóðar sinnar og dreyndar Elísabet II líka. Þau hughreystu þjóðina og tölu í hana kjark og þor. Leysti vandann? Veit ekki en þau sýndu hvað leiðtogar eiga að gera á þrengingartímum. Ólafur Ragnar á að segja af sér frekar en að vera í felum.

P.S. Jóhanna Sigurðardóttir og hennar fólk er of upptekið við að koma okkur í ESB til að sinna eðlilegu leiðtogahlutverki.

Guðmundur St Ragnarsson, 27.7.2009 kl. 02:54

15 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Ætlaði að segja að Winston Churchill hafi talað tl þjóðar sinnar en ekki Hitler :)

Guðmundur St Ragnarsson, 27.7.2009 kl. 02:55

16 Smámynd: GH

Hvað sem segja má um ÓRG, hlutverk hans og frammistöðu þá er erfitt að sjá hvernig hann getur hegðað sér öðruvísi nú en hann hefur gert. Þannig hefði enginn forseti getað "sameinað" þjóðina við núverandi aðstæður. Deilur eru einfaldlega of djúpstæðar og það er ekki hægt að breiða yfir þær. Deilur um hermálið voru hliðstæðar, en útilokað var að sameina þjóðina í því máli -- sumir voru með, aðrir á móti dvöl bandaríkjahers á Íslandi og því varð ekki breytt. Við slíkar aðstæður verða stjórnmálamenn einfaldlega að komast að niðurstöðu og þar gildir meirihlutinn. Í hermálinu var það Alþingi sem komst að niðurstöðu, og sama mun gerast í Icesave. Í ESB tók Alþingi ákvörðun um að sækja um, en endanlega mun þjóðin skera úr um það í kosningum. Í þessum málum öllum eru skoðanir skiptar og forsetinn breytir þar engu. Ef hann fer að blanda sér í þau skapar hann ekk meiri frið heldur flækir þær aðeins með því að taka afstöðu með einum deiluaðilja gegn öðrum. Vonandi lætur hann það vera, því það einfaldar engin mál heldur virkar aðeins eins og hella olía á eld.

GH, 27.7.2009 kl. 08:33

17 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Hmmm, Guðmundur, ég held að Beta hafi hvergi ávarpað bresku þjóðina opinberlega í seinni heimstyrjöld.  Það gæti hins vegar hafa verið faðir hennar, Georg VI sem ríkti til ársins 1952. 
En það hjálpar ÓRG svosem ekki mikið, hann er jafn óhæfur og áður.  Ég held nefnilega að þjóðin hafi aldrei kosið hann, heldur konuna hans sálugu.  Og svo sitjum við uppi með hann, eins og áður hefur fram komið, af því að það er ekki hefð fyrir því að fella sitjandi forseta.

Sigríður Jósefsdóttir, 27.7.2009 kl. 13:12

18 identicon

Forsetinn er fífl... best væri að Dorrit taki að sér að koma fram fyrir hans hönd, hún getur haldið á mynd af Ólafi.

DoctorE (IP-tala skráð) 27.7.2009 kl. 17:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Þorsteinsson

Höfundur

Sigurður Þorsteinsson
Sigurður Þorsteinsson
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • Þor
  • Þor
  • Birna Einarsdóttir
  • Birna Einarsdóttir
  • kjöt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband